Styður rannsóknir á landgrunni undan Norðausturlandi

Bæjarráð Akureyrar styður heilshugar þingsályktunartillögu þar sem því er beint til iðnaðarráðherra að hann hlutist til um að nú þegar verði hafist handa um framhald rannsókna á hugsanlegum kolvetnisauðlindum undan Norðausturlandi.  

Bæjarráði barst erindi frá Alþingi, sem þar óskað er umsagnar um tillögu til þingsályktunar um olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi. Flutningsmenn tillögunnar eru sjálfstæðisþingmennirnir Kristján Þór Júlíusson, Ásbjörn Óttarsson, Einar K. Guðfinnsson, Jón Gunnarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson. Í greinargerð með tillögunni segir m.a: "Með tillögu þessari er lagt til að iðnaðarráðherra verði falið að tryggja að hafnar verði olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi. Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að olíu eða gas sé að finna í setlögum á svæðinu, til að mynda á Tjörnesbeltinu, og því er eingöngu horft til þess svæðis í tillögunni. Eðlilegt verður að telja að stuðst verði við fyrri rannsóknir við staðarval og byggt á þeim grunni sem nú þegar er til svo ekki sé stofnað til ónauðsynlegra rannsókna eða tíma og fé sóað. Mikilvægt er að fá sem fyrst fullnægjandi niðurstöður um setlögin en til þessa hafa niðurstöður rannsókna verið ófullnægjandi."

Nýjast