Styðja við uppbyggingu meistaranáms

Bakhjarlar meistaranáms í viðskiptafræðum við Háskólann á Akureyri komu saman í morgun og skrifuðu undir samninga um að styrkja fjárhagslega og faglega við bakið á nýju meistaranámi í viðskiptafræðum við viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri sem hefst á næsta haustmisseri. Styrktaraðilar eru Saga Capital , Sparisjóður Norðlendinga og fleiri sparisjóðir en einnig styrkja námið Íslensk verðbréf og Glitnir . „Við hlökkum til samstarfsins og væntum mikils af því" sagði Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Saga Capital, fyrir hönd þeirra fjármálafyrirtækja sem koma að uppbyggingu meistaranámsins. Í samningum fjármálafyrirtækjanna og HA kveður á um að fyrirtækin styrki fjárhagslega við uppbyggingu mannauðs við deildina með því að kosta heimsóknir gistikennara og gestafyrirlesara. Jafnframt því mynda fulltrúar frá fyrirtækjunum fagráð sem verður til ráðgjafar um uppbyggingu námsins. Samvinna þessara aðila er til marks um síaukna þörf fyrir vel menntað vinnuafl í því alþjóðlega umhverfi sem íslenskar fjármálastofnanir, og íslensk fyrirtæki almennt, starfa við í dag. Sífellt er þörf fyrir að dýpka og bæta við þekkingu fyrirtækjanna og það verður ekki gert nema með því að bjóða uppá afburða góða menntun á þessu sviði á Íslandi. Viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri, í samvinnu við ofangreind fyrirtæki, ætlar sér að koma á fót afburða góðu námi fyrir nemendur sem eru reiðubúnir að takast á við krefjandi nám þar sem áhersla er lögð á hagnýta þekkingu til jafns við fræðilegan undirbúning.

Boðið verður uppá tvær námsleiðir; annarsvegar í alþjóðafjármálum og bankastarfsemi og hinsvegar í stjórnun í alþjóðlegu bankaumhverfi. Fyrri umsóknarfrestur er til 15. mars n.k. fyrir nám sem hefst næsta haust. Seinni umsóknarfrestur er til 15. apríl. Takmarkaður fjöldi fær skólavist og eiga þeir sem sækja um í fyrri umgangi meiri möguleika á skólavist.

Nýjast