Stúlkan á hægum batavegi – söfnun hafin –

Landspítalinn/mynd Morgunblaðið
Landspítalinn/mynd Morgunblaðið

Tveggja ára stúlkan á Akureyri sem greindist með E.Coli-bakteríu er á hægum batavegi en er ennþá undir ströngu eftirliti á Landspítalanum. Eins og Vikudagur greindi frá, var stúlkan flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur fyrir þremur vikum og var í öndunarvél í tvær vikur og blóðskilun. „Þetta er allt á uppleið. Hún er farin að standa aðeins í fæturnar og segja nokkur orð,“ segir amma stúlkunnar.

Nýrun voru hætt að starfa og er of snemmt að segja til um hvort stúlkan hljóti varanlegan skaða vegna veikindanna. „Læknarnir eru bjartsýnir á að nýrun muni starfa eðlilega á ný og við vonum það besta.“ Hún segir undanfarnar vikur hafa tekið mjög á foreldrana. „Þau vaka yfir barninu nánast allan sólarhringinn og það er alveg óvíst hversu lengi þau þurfa að vera á spítalanum.“

Stúlkan er á leikskólanum Hlíðarbóli á Akureyri og starfsfólk þar ásamt vinum foreldra barnsins hafa tekið sig saman og hafið styrktarsöfnun fyrir foreldrana.

„Móðir stúlkunnar er í fæðingarorlofi og faðirinn rekur fyrirtæki sem er stopp vegna ástandsins. Þau hafa því lágar tekjur og lítið á milli handanna,“ segir Halla Björg Albertsdóttir starfsmaður á Hlíðarbóli. „Eðlilega hafa þau miklar áhyggjur af stúlkunni og ekki á það bætandi að vera með fjárhagsáhyggjur ofan á það. Við viljum létta undir áhyggjum þeirra með þessum hætti.“

Þeir sem vilja leggja fjölskyldunni lið geta lagt inn á reikning föður barnsins, sem er  0302-26-71078, kennitala 071078-3109.

throstur@vikudagur.is

Nýjast