Stúlka slasaðist alvarlega í dimmiteringu MA

Alvarlegt slys varð á Akureyri í dag þegar stúlka slasaðist í dimmiteringu útskriftarnema við Menntaskólann á Akureyri. Atvikið varð með þeim hætti að stúlkan klemmdist á milli þegar hleri á vagni í eftirdragi var lokað. Bíllinn var kyrrstæður þegar atvikið átti sér stað.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins er stúlkan ekki lífshættulega slösuð en hún var flutt suður til Reykjavíkur til frekari aðhlynningar.

Jón Már Héðinsson, skólameistari MA, segir í samtali við Vikudag að nemendur og allt starfsfólk skólans séu harmi slegin vegna atviksins. Hann segir að um algjört óhapp hafi verið að ræða.

„Þarna var misskilningur á milli bílstjórans og nemenda sem olli slysinu. Það voru engin fíflalæti í gangi þegar þetta gerðist og um algjört óhapp að ræða. Hugur okkar allra er hjá stúlkunni,“ segir Jón Már. 

Taka skal fram að allar uppákomur Menntaskólans á Akureyri eru áfengislausar og því er ekki haft áfengi um hönd í dimmiteringu skólans.


Athugasemdir

Nýjast