Stuðla þarf að vandaðri næringu eldra fólks

Elsa María Guðmundsdóttir, S-lista
Elsa María Guðmundsdóttir, S-lista

 „Þetta snýst um að fylgja málinu eftir, hér er um viðkvæman hóp að ræða og við verðum með öllum ráðum að skoða hvað við getum gert,“ segir Elsa María Guðmundsdóttir, S-lista en hún óskaði eftir umræðum um stöðu mála varðandi heimsendan mat á fundi velferðarráðs.

 Hún segir að í ljós frétta sem birtust í Vikublaðinu í vor um rannsókn sem Sandra Ásgrímsdóttir gerði um næringarástand eldri borgara í sjálfstæðri búsetu á Akureyri og nágrenni og líkur á að þessi hópur byggi við næringarskort  hefði hún áhuga á að ræða þetta mál varðandi heimsenda matinn. Meðal þess sem Elsa María hefur áhuga á er hvernig eftirliti varðandi samsetningu og næringarinnihald sé háttað.

Niðurstöður rannsókna Söndru sýndu að 36% einstaklinga í sjálfstæðri búsetu á þessu svæði og með þjónustu frá heimahjúkrun HSN væru með ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu. Komst hún að þeirri niðurstöðu að þörf væri á forvörnum og  aðgerðum til að stuðla að betri næringu eldra fólks í sjálfstæðri búsetu.

Í bókun Elsu Maríu og Snæbjörns Guðjónssonar V-lista segir að niðurstöður rannsóknarinnar bendi til þess að þrátt fyrir ætlaða hollustu og næringarinnihald matarbakkanna þyrfti að fylgjast með þeim eldri borgurum sem nota þessa þjónustu Akureyrarbæjar. „Slæmt næringarástand hefur í för með sér ýmsar afleiðingar sem geta hamla lífsgæðum eldri borgara,“ segir í bókun og að áhugavert væri að skoða aðra möguleika, m.a. hvort fólk ætti þess kost að koma í matsal Heilsuverndar, Hlíð og borða á staðnum. „Það getur auðvitað verið snúið fyrir sumar en aðrir eiga ef til vill heimangengt,“ segir hún.

„Það er mikilvægt að sá matur sem við erum að senda út til eldri borgara uppfylli þá næringarstaðla sem Landlæknisembættið gefur út og því er nauðsynlegt að við séum meðvituð um þetta ástand sem margir eldri borgarar búa við og að við höfum eitthvað eftirlit með því hvernig staðið er að þessum málum.“


Athugasemdir

Nýjast