Stórvirki Ragnheiðar

Ragnheiður Björk hefur unnið að bók sinn í um níu ár.
Ragnheiður Björk hefur unnið að bók sinn í um níu ár.

Ragnheiður Björk Þórsdóttir, textíllistamaður, kennari og sérfræðingur við Textílmiðstöð Íslands, hefur sent frá sér bókina „Listin að vefa“, sem er fyrsta heildarritið sem út kemur hér á landi um vefnað á Íslandi, frá landnámi til okkar daga. Bókin hefur verið um níu ár í smíðum. Vaka-Helgafell gefur út. Borghildur Ína Sölvadóttir, kennari við listnáms- og hönnunarbraut VMA og grafískur hönnuður, hannaði bókina og braut um.

 

Kennari í þrjátíu ár í VMA
Ragnheiður Björk hefur lengi verið í fremstu röð textíllistamanna hér á landi og var hún bæjarlistamaður Akureyrar 2014-2015.

 „Ég kenndi vefnað í Verkmenntaskólanum á Akureyri í þrjátíu ár, frá 1988 til 2018, og á þeim tíma bjó ég til kennsluefni fyrir nemendur, enda var það mjög af skornum skammti. Sigrún P. Blöndal, skólastjóri Hússtjórnarskólans á Hallormsstað, hafði gefið út bókina Vefnað árið 1948 en það má segja að hún sé barn síns tíma og þar að auki hefur hún lengi verið ófáanleg. Í meistaranámi mínu í Háskólanum á Akureyri gerði ég kennsluhefti fyrir nemendur og í framhaldinu fór ég að safna frekari upplýsingum um textíl á Íslandi í gegnum tíðina. Í meistaranáminu fékk ég þá flugu í höfuðið að útvíkka verkefnið og safna efni í bók og fór því til Forlagsins árið 2011 með þá hugmynd og fékk strax mjög jákvæð viðbrögð, en hins vegar voru ekki til peningar til þess að ráðast í verkefnið.

Síðan liðu um tvö ár og á þeim tíma skrifaði ég eitt og annað hjá mér án þess að vinna markvisst að ritun bókar. Forlagið sótti síðan um útgáfustyrk til vinnslu bókarinnar og hann fékkst árið 2013. Þá var ekki aftur snúið og ég hélt áfram að safna heimildum og skrifa. Ég gerði mér ekki grein fyrir hversu viðamikið þetta gæti orðið en þegar upp er staðið er þetta töluvert stærra í sniðum en ég hafði ímyndað mér. Ég var sammála Forlaginu í því að slíkt yfirlitsrit um íslenskan vefnað yrði ekki gefið út í bráð á Íslandi og því yrði bókin að vera vegleg og gefa gott og ítarlegt yfirlit yfir vefnað og sögu hans frá landnámi og til okkar daga, hún yrði með öðrum orðum að vera sagnfræði um vefnað, hún þyrfti að vera tæknilegs eðlis og einnig að innihalda aðferðafræði, þannig að hún gæti þjónað háskólasamfélaginu, kennslu í framhaldskólum, listafólki og öllu áhugafólki um vefnað.

Að mínu mati hefuri tekist að búa til bók sem þjónar öllu áhugafólki um vefnað, sagnfræðingum og fræðimönnum. Í henni er allt það sem mér finnst skipta máli í sambandi við vefnað á Íslandi,“ segir Ragnheiður, sem er ekki ofsögum sagt því bókin er fyrsta heildar yfirlitsritið um íslenskan vefnað og því afar mikilvæg heimild og merkt framlag til íslenskrar menningar enda hefur vefurinn alla tíð verið samofinn sögu íslensku þjóðarinnar.

Ragnheiður segir afar mikilvægt að fólk átti sig á því að vefnaður sé ekki bara vaðmál, hann sé spennandi heimur ótal hluta sem sé samofinn sögu okkar og menningu. „Þjóðin hefði ekki lifað af ef hún hefði ekki getað ofið á kljásteinavefstað og vefnaður var í átta hundruð ár helsti útflutningur Íslendinga. En því miður hafa þessi tengsl við fortíðina rofnað og það er mín von að þessi bók opni augu fólks fyrir vefnaði í íslenskri sögu og skilji mikilvægi þess að þessi þekking glatist ekki,“ segir Ragnheiður.

Vinnur að rannsóknarverkefni á Blönduósi

Ragnheiður vinnur nú að rannsókn hjá Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi, sem er fjármögnuð með styrk frá Rannís og er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. „Ég vinn að því að skrásetja á tölvutækt form gamlar vefnaðarbækur og nú þegar eru komin á tölvutækt form yfir tvö þúsund munstur. Þetta er viðamikið og afar þarft verkefni,“ segir Ragnheiður Björk.

 


Nýjast