Stórviðburður í Síðuskóla í kvöld

Sinfóníuhljómsveit Íslands sækir Akureyringa heim í dag og heldur tónleika í íþróttahúsinu við Síðuskóla í kvöld og hefjast þeir kl. 19.30. Hljómsveitin hefur aldrei fyrr haft svo fjölmennu liði á að skipa á tónleikum utan Reykjavíkur, svo hér er um stórviðburð að ræða. Hljómsveitarstjórinn er enginn annar en Rumon Gamba, en hann hefur verið aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2002. Einleikari tónleikanna, rússnesski píanistinn Lilya Zilberstein, hefur verið talin einn fremsti píanóleikari Rússlands af yngri kynslóðinni og verið nefnd „seiðkona slaghörpunnar." Zilberstein hefur reglulega komið fram með hinni víðfrægu Berlínarfílharmóníu og var um árabil á samningsbundin útgáfufyrirtækinu Deutsche Grammophon og hljóðritanir hennar hafa hlotið mikið lof gagnrýnenda.

Á efnisskrá tónleikanna í kvöld eru verk eftir Jón Leifs, Edvard Grieg og Dímítríj Sjostakovitsj. Tónleikarnir eru liður í undirbúningi hljómsveitarinnar fyrir tónleikaferð til Þýskalands, Austurríkis og Króatíu síðar í mánuðinum. Miðasala á tónleikana er í Pennanum, Hafnarstræti, og við innganginn fyrir tónleikana. Miðaverð er 2.500 kr. en einungis 1.250 kr. fyrir 16 ára og yngri.

Nýjast