Stórt skref aftur á bak
Bæjarfulltrúi Vg á Akureyri segir það stórt skref aftur á bak að hækka leikskólagjöldin í bænum. Eins og Vikudagur hefur greint frá munu dagvistunargjöld hækka um 7% eftir áramót. Lögð var fram tillaga að gjaldskrám Akureyrarbæjar fyrir næsta ár í bæjarráðsfundi og samþykkti meirihluti bæjarráðs framlagðar gjaldskrár og vísar þeim til afgreiðslu.
Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi V-lista, sat hjá við afgreiðslu og óskaði bókað:
"Í skólastefnu Akureyrarbæjar kemur fram að leita skuli leiða til að gera leikskólann gjaldfrían. 7% hækkun á leikskólagjöldum er þvert á þessa stefnu. Leikskólinn hefur verið viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og hluti af menntakerfi samfélagsins, það er því mikið jafnaðar- og jafnréttismál í nútíma samfélagi að allir eigi kost á leikskóladvöl fyrir börn sín án tillits til efnahags og því er það stórt skref aftur á bak ef bæjarstjórn Akureyrar tekur ákvörðun um að víkja frá stefnu um gjaldfrían leikskóla. Ég get því ekki stutt framlagðar gjaldskrár."
-þev