Það tók heimastúlkur 12. mínútur að skora fyrsta markið í leiknum og það gerði Mateja Zver þegar hún afgreiddi boltann snyrtilega í netið eftir sendingu frá Ivönu Ivanovic. Fimm mínútum síðar bætti Karen Nóadóttir við öðru marki heimastúlkna með hnitmiðuðu skoti inn í teig í bláhornið fjær eftir góðan undirbúning frá Rakel Hönnudóttur. Það var svo Rakel sjálf sem skoraði þriðja mark heimastúlkna þegar hún tók á rás í átt að marki gestanna og lét vaða á markið fyrir utan teig og gott skot hennar söng í netinu. Staðan í hálfleik, 3-0 fyrir Þór/KA.
Eftir mikla yfirburði Þórs/KA í fyrri hálfleik var aðeins meira jafnræði með liðunum í upphafi seinni hálfleiks. Afturelding komst aftur inn í leikinn þegar þær náðu að minnka muninn með marki á 54. mínútu og staðan orðinn 3-1. En Þórs/KA stúlkur voru ekki á því að hleypa gestunum nær þeim og Mateja Zver skoraði sitt annað mark í leiknum og fjórða mark heimastúlkna á 67. mínútu þegar hún fékk boltann fyrir utan teig gestanna, sneri á punktinum og þrumaði boltanum í stöng og inn. Glæsilega gert og Þórs/KA stúlkur komnar í 4-1. Rakel Hönnudóttir skoraði fimmta mark heimastúlkna og annað mark sitt í leiknum á 77. mínútu þegar hún skallaði boltann glæsilega í netið eftir hornspyrnu frá Mateju Zver. Rakel fullkomnaði svo þrennuna með marki á uppbótartíma leiksins og öruggur 6-1 sigur Þórs/KA á Aftureldingu staðreynd.
Eftir leikinn hefur Þór/KA 25 stig og er í fjórða sæti deildarinnar.