Veruleg uppsveifla hjá SinfoNord á árinu

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson
Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson

Ný sprotaverkefni Sinfonínuhljómsveitar Norðurlands, sem felast í því að taka upp sinfóníska tónlist fyrir kvikmyndir og hljómplötur og samstarf hljómsveitarinnar við heimsfræga og landsfræga tónlistarmenn úr öðrum kimum tónlistarinnar, hafa aukið tekjur og tíðni viðburða sinfóníunnar um a.m.k 100%. Frá því í janúar 2015 hefur hljómsveitin haldið 12 stóra tónleika, tvenna minni tónleika og tekið þátt í 6 upptökuverkefnum. Flest tengd upptökum á kvikmyndatónlist. Þetta eru 19. viðburðir á einu ári. Á þessu tímabili hafa rúmlega 6000 manns mætt á tónleika SinfoniaNord, eins og sveitin er jafna kölluð. Tekjur af miðasölu á þessa tónleika eru um 31.000.000 kr. Til viðbótar eru tekjur af upptökuverkefnum sinfóníunnar um 8.000.000 kr. og í allt hátt í 40 milljónir.

Þetta kemur fram í grein sem Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, ritar í Vikudegi sem kemur út í dag.

„Þetta eru stórauknar tekjur fyrir meðlimi hljómsveitarinnar og listræna samstarfsmenn hennar. Kvikmyndaverkefnin skila tekjum beint til viðburðarsviðs MAk, Tónlistarskóla Akureyrar, Kammerkórs Akureyrar og stúlknakórs Akureyrarkirkju. Hótelin,veitingahúsin og samgöngufyrirtækin á svæðinu taka við fjölda íslenskra og erlendra samstarfsaðila hljómsveitarinnar. Svona aukning í sinfónísku lífi á Akureyri hlýtur að hafa góð áhrif á samfélagið og á eftir að gera það að verkum að atvinnutónlistarmenn eiga eftir að líta á það sem góðan kost að setjst að á Norðurlandi og starfa við listsköpun sína,“ segir Þorvaldur en greinina í heild sinni má sjá prentútgáfu Vikudags.

Nýjast