„Stoltur af uppruna mínum“

Daníel var í skýjunum með ferð sína til Kalkútta.
Daníel var í skýjunum með ferð sína til Kalkútta.

Daníel Chandrachur Annisius heimsótti fyrir skemmstu Indland og barnaheimili sitt  í Kalkútta en þaðan var hann ættleiddur til Íslands fyrir 33 árum ásamt fleiri húsvískum börnum. Blaðamaður Vikublaðsins ræddi við hann um ferðina og leitina að upprunanum.

Tvö húsvísk fyrirtæki Ísfell (Icewear) og Gentle Giants-Hvalaferðir ákváðu að styrkja starfsemi barnaheimilisins rausnarlega í tilefni ferðar Daníels með alls konar íslenskum fatnaði, leikföngum og öðrum búnaði sem mun koma að góðum notum fyrir börnin.

„Þetta barnaheimili á voðalega lítið og hefðin hefur verið. Ég fór til Hafdísar í Ísfelli á Húsavík og ætlaði að kaupa eitthvað af böngsum eða einhverju. Svo heyrði hún af því sem ég væri að gera þannig að hún gaf mér alveg helling af fötum, göllum og flísjökkum og svona. Ég tók þátt í þessu líka og Gientle Giants. Þetta er spennandi verkefni og tengingin sterk við Ísland. Þetta er ekki bara ég, þetta eru nokkur börn hér á Húsavík og svo auðvitað á landinu öllu. Ég var þarna að leika við börnin og gaf þeim lundabangsa en þeim fannst það alveg æðislegt. Fullt af lundum hvölum og slíku. Þeim fannst það rosalega spennandi þannig að ég er mjög þakklátur þessum aðilum að hafa tekið þátt í þessu. Ég upplifði allt það sem ég vildi gera og fór víða. Ég var heilsuhraustur allan tímann þrátt fyrir að hafa smakkað allskonar lókal mat frá mörkuðum,“ segir Daníel og bætir við að starfsfólkið og börnin hafi verið  hæstánægð með þessar gjafir „og er ég mjög þakklátur þessum fyrirtækjum enda mikil tenging við Kalkútta hjá mörgum íslenskum fjölskyldum í nær fjóra áratugi.“

Hægt er að styrkja barnaheimilið í Kalkútta (ISRC) gegnum góðgerðarsamtökin Illuminate India með því að smella HÉR en þau framlög renna beint til barnaheimilisins. 

 Ótrúleg upplifun

Blómamarkaður

„Ég og konan mín fórum til Kalkútta í heimsókn árið 2009. Við heimsóttum barnaheimilið sem ég var á og vorum í nokkra mánuði í Indlandi, vorum með sjálfboðastarf og allskonar slíkt,“ segir Daníel og bætir við að ferðin hafi verið ótrúleg upplifun. „Kveikjan núna var sú að eftir að ég eignaðist dóttur mína, Lunu árið 2018, þá fór ég að hugsa að þetta væri hennar uppruni líka. Hún er 50% frá Kalkútta og verður það alltaf. Þá fór maður að spá í það að maður myndi kannski sjá eftir því ef maður reyndi ekki að komast að aðeins meiru um uppruna sinn. Sjá hvort það eru einhverjar upplýsingar,“ útskýrir hann.

Daníel segir jafnframt að forstöðukonan, sú sem er búin að starfa á barnaheimilinu síðan 1981 sé nú komin á áttræðisaldur. „Ég vissi af því, ég hef verið aðeins í sambandi við hana í gegnum samskiptaforrit. Hún er sem sagt komin vel yfir sjötugt og þá hugsaði ég að eftir kannski nokkur ár þá er hún ekki lengur þarna. Ég vildi endilega hitta hana áður en það gerist.“

 Setti sér þrjú markmið

Daníel segist hafa verið með þrjú markið fyrir förina. „Að hitta forstöðukonuna og það að heimsækja barnaheimilið sem er enn þá það sama og ég var á og svo líka að kynnast Kalkútta betur,“ segir Daníel. „Þetta gerði ég allt, það upplýsti mjög mikið og ég er alveg í skýjunum með ferðina.“

Daníel á frænda í Skotlandi sem slóst í förina með honum. Þar sem Daníel er fæddur í Kalkútta þá passaði hann mjög vel inn í samfélagið. „Ég passa bara vel þarna inn í mannmergðina, þessar 17 milljónir, enda stendur ekkert á enninu á mér að ég sé ferðamaður frá vesturlöndum. Það hafði mikla kosti í för með sér,“ útskýrir Daníel og hlær.  

„Ég fór með frænda mínum í Skotlandi sem er búinn að ferðast mikið og verið á Indlandi áður. Ég hafði hugsað að fara einn en svo fannst mér þægilegra að hafa einhvern með mér. Bara svona að vera saman og geta farið yfir hlutina með einhverjum. Við vorum þarna í viku og það var alveg yndislegt.“

 Ávarpaður á Bengali

Frændur

Daníel lýsir því að þeir frændur hafi heimsótt barnaheimilið fjórum sinnum og skoðað sig um, m.a. götumarkaðinn og prófað allskonar mat.  „Ótrúlegt en satt, þá urðum við ekkert veikir. Við gerðum alveg helling, vorum tvisvar með leiðsögumann með okkur en svo fórum við bara um alla borgina, í gegn um fátækrahverfin og víðar.  Þannig að þetta var alveg ótrúleg upplifun. Þetta nefnilega er ekki mikil túristaborg þannig. Ég held að við höfum talið einhverja 10 hvíta ferðamenn á meðan við vorum þarna. Þetta er meira byggt upp á heimafólki og allir markaðir sniðnir þannig. Það eru engin túristaverð eða verið að svindla á okkur. Fólk heldur náttúrlega bara að ég sé heimamaður og gefur mér lókal verð,“ segir Daníel léttur í bragði.

Daníel segist ekki hafa lent í teljandi tungumálaörðuleikum í ferðalaginu, þó hann tali hvorki Bengali eða Hindi. „Ég nefnilega tala ekki neitt af þessu og það olli smá misskilningi hjá fólki. Það náttúrlega ávarpar mig á Bengali og þegar ég segi að ég skilji ekki þá fer það í Hindi og þar er ég jafn mállaus. Ég fór bara að tala ensku með smá indverskum hreim og þannig gat ég hljómað eins og Indverji líka. T.d. frá suður Indlandi þar sem ekki er töluð Hindi, þar er enska líka þeirra tungumál. Maður gat því tjáð sig allan tímann á ensku.“

 Sameinuðu þjóðir Húsavíkur

Þrátt fyrri að hafa verið ættleiddur til Húsavíkur árið 1990 þá ólst Daníel upp í fjölþjóðlegra umhverfi en börn flest. Hann tekur undir. „Mamma er frá Skotlandi og pabbi frá Þýskalandi. Svo eru systkini mín ættleidd frá Tyrklandi og konan mín er frá  Svíþjóð. „Ég man að Jóhannes á Víkurblaðinu tók viðtal við okkur fyrir löngu og þá var titillinn á viðtalinu: Sameinuðu þjóðirnar á Húsavík,“ segir Daníel og hlær.

Ættleiðingar í lágmarki

Klipping

Ættleiðingar frá Indlandi hafa verið í lágmarki síðustu árin en að sögn Daníels er mikill áhugi hjá forstöðukonu barnaheimilisins að hefja reglulegar ættleiðingar til Íslands og gefa börnum tækifæri á betra lífi hér á landi. Einnig fyrir þær fjölskyldur sem þrá að eignast börn og kjósa að ættleiða. „Ættleiðingar þaðan til Íslands voru mjög algegnar á þessum tíma sem ég var ættleiddur. Við erum fjögur sem vorum ættleidd þaðan hingað til Húsavíkur. Síðan við komum hefur eiginlega ekkert verið um ættleiðingar hingað. Það er svolítið á ábyrgð Indverja sjálfra. Þau eru að reyna ættleiða meira innanlands og vilja ekki vera missa öll þessi börn úr landi. Sértaklega upp á stoltið, vilja ekki vera senda börn erlendis eins og Indverjar geti ekki hugsað um þau,“ útskýrir Daníel en bætir við að forstöðukonan hafi lýst því yfir að hún hefði áhuga á að skoða ættleiðingar til Íslands á ný.

„Samskiptin hafa verið góð og hún hefur séð að þessi börn sem komu til Íslands hafa það mjög gott, þannig að hún var alveg tilbúin til að fara skoða það aftur,“ segir Daníel og bætir við að það hafi verði afar sérstakt að heimsækja barnaheimilið sitt og hitta fólk sem hefur unnið þar í 35 ár. „Þessar sömu konur og sáu um mig og skiptu á bleyjum og svona.“

Daníel segir að eins og gefi að skilja séu aðstæður bágbornar og allt aðrar en við eigum að venjast hér á landi en starfsfólkið geri sitt allra besta og sýni mikla umhyggju í umönnun barnanna. „Ég man að ég spurði hvort þau væru með leikföng, liti eða eitthvað slíkt en svo er ekki. Þau eru með nokkra bangsa það er allt og sumt. Þannig að þetta er ekki eins og við myndum segja gott. En þær sem vinna þarna eru mjög ljúfar og hugsa vel um börnin,“ segir Daníel en gjafirnar sem hann tók með sér frá Íslandi hafi slógu rækilega í gegn.

 Lítið vitað um upprunann

Daníel segir frá því að í raun sé ekkert vitað um sinn uppruna en hann spurði aðeins út í þá hluti. Hann fékk þær upplýsingar að mjög lítið sé vitað um indversku börnin en í skýrslum stendur yfirleitt eitthvað á þá leið; ung móðir, jafnvel niður í fjórtán ára. „Þetta eru stelpur sem eru að verða óléttar og geta ekki hugsað um börnin. Ég hafði komið inn á þetta barnaheimili og móðir mín haft einhverja mánuði í umhugsunarfrest. Mér fannst gott að vita af því að ég var ekki tekinn beint af götunni og ég lít á þetta meira sem annað tækifæri í lífinu, nú þegar ég er orðinn faðir sjálfur. Þannig að ég er bara þakklátur. Það snerti mig mikið að sjá þarna börn sem voru kannski á aldur við Lunu mína. Börn sem voru kannski fimm ára. Ég hefði getað verið eitt af þessum börnum líka og að sjá ungar mæður með pínkulítil börn að rölta um Kalkútta; svona var móðir mín líka,“ segir Daníel og bætir við að hann viti ekki hvar blóðmóðir sín er niðurkomin.

„Í mínum skjölum stendur bara  að hún hafi verið ung ógift kona og vegna félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna hafi hún gefið mig til ættleiðingar.  Forstöðukonan sagði nú samt að hún vildi endilega fara glugga í skjölum og sjá hvort hún myndi finna eitthvað en sagði jafnframt að barnaheimilið væri búið að flytja fjórum sinnum á þessum tíma. Því væri eflaust eitthvað glatað. Það sem hún sagði líka er að það ríki ákveðinn trúnaður. Þ.e.a.s. að konurnar gætu ekki komið síðar og fundið börnin, og sagt: Þú ert sonur minn og ert ríkur maður frá vesturlöndum og átt að sjá fyrir mér núna. Bæði það og svo þetta að það eru ungar konur eða stelpur sem verða óléttar. Nú eru þær kannski giftar og eiga fullt af börnum og eiginmaðurinn vissi kannski ekki af þessu. Svo birtist allt í einu einhver tíndur sonur. Það getur sett þessar konur í mjög erfiða stöðu. Því ríkir sterkur trúnaður varðandi þetta,“ útskýrir Daníel.

 Þakklátur blóðmóður sinni

Spurður hvort það blundi einhver þrá í honum eftir því að læra meira um uppruna sinn og jafnvel finna blóðmóður sína segir Daníel að hann hafi vissulega hugsað út í þessa hluti.

„Ég tók tvö  DNA-próf, þá kom í ljós að ég á fullt af ættingjum út um allan heim, engir mjög nánir samt, allt þrímenningar eða fjórmenningar,“ segir Daníel og bætir við að um sé að ræða ættleidd börn í Bandaríkjunum og Evrópu.

„Auðvitað hef ég hugsað talsvert um þessa hluti, ég væri alveg til í að vita meira um uppruna minn. En á móti hugsa ég; mun líf mitt eitthvað breytast ef ég kemst að því að blóðmóðir mín er fátæk á götunni. Myndi það breyta lífi mínu til hins betra að vita þetta og geta ekki flutt hana hingað? Ég veit að þetta er misjafnt hjá ættleiddum börnum og sum upplifa höfnun. Fyrir mína parta að koma hingað til Húsavíkur og alast upp hjá frábærum foreldrum og fjölskyldu. Ég lít bara á það sem forrétttindi og er þakklátur móður minni að hafa gefið mig upp til ættleiðingar í stað þess að reyna ala mig upp á götunni í Kalkútta. Mér finnst þetta gott, sérstaklega eftir að ég varð faðir sjálfur að sjá þetta frá þessu sjónarhorni,“ útskýrir Daníel og bætir við að hann sé eins og aðrir Íslendingar sem eigi það til að kvarta yfir léttvægustu hlutum eins og veðrinu. „Þegar maður spáir í því þá höfum við það ansi gott miðað við allt saman,“ segir Daníel og bætir við að hann muni klárlega heimsækja Kalkútta aftur. „Þetta er skemmtileg borg en ég fer eflaust með dóttur mína þegar hún verður aðeins eldri, enda er ég mjög stoltur af uppruna mínum,“ segir hann og kveðst sáttur með það sem hann hefur komist að.

„Ég veit um barnaheimilið mitt og hef hitt forstöðukonuna sem skrifaði undir ættleiðingarpappírana og fóstrurnar. Það er það næsta sem ég kemst uppruna mínum og ég er bara sáttur við það. Ég fékk uppgefinn einhver tvö hverfi sem algengt var að mæðurnar kæmu frá en ég ákvað að vera ekkert að fara þangað. Ég veit nóg, þetta nægir mér,“ segir Daníel að lokum.


Athugasemdir

Nýjast