Stjórnvöld hafa lítinn áhuga á samstarfi við verkalýðshreyfinguna

Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju kveðst hafa af því áhyggjur hversu lítinn áhuga stjórnvöld hafi á samstarfi við verkalýðshreyfinguna.  Fyrir 15. febrúar nk. þarf að taka ákvörðun um hvort núgildandi samningar verði framlengdir til loka árs 2010.  

Björn segir verkalýðshreyfinguna hafa komið á framfæri ábendingum sínum m.a.a varðandi endurskoðun á kjarasamningi og forsendum fyrir endurnýjuðum samningum en ekki skynjað annað en áhugaleysi hjá stjórnvöldum. Áhugi virðist ekki vera fyrir hendi enn sem komið er að minnsta kosti á því að koma að borðinu og ræða málin. "Við viljum fyrir alla muni ræða málin svo allt fari ekki upp í loft hér á vordögum,"segir  Björn.  Verði samningar ekki endurnýjaðir nú dettur út 13.500 króna launahækkun sem átti að koma 1. mars nk. og önnur um áramótin 2009 til 2010.  "Við lítum svo á að hunsi stjórnvöld að ræða við okkur megi líkja því við að henda fýlusprengju beint inn í hópinn.  Það kann ekki góðri lukku að stýra, en við skulum vona á Eyjólfur hressist á nýju ári og stjórnvöld verði til viðtals," segir Björn.

Varðandi fjárlagafrumvarpið segir Björn að boðuð skattahækkun muni ekki bitna á þeim sem lægstu launin hafa, en það megi þakka baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir því að ná inn verðtryggingu á persónuafslátt.  "Við lögðum mikla áherslu á þann þátt við gerð kjarasamninga og náðum þessu markmiði okkar.  Það mun hafa í för með sér að auknar álögur munu ekki bitna á þeim sem hafa lægstu launin," segir Björn.  Hann hefði viljað sjá hátekjuskatt og blæs á þær röksemdir að útfærsla slíks skatt sé flókin.  "Ef viljinn hefði verið til staðar er málið alls ekki flókið, en það vantar viljann til að taka meira af þeim sem hafa háar tekjur, það er augljóst," segir Björn.

Nýjast