Stjórnvöld bregðist við tilmælum ESA vegna orkumála

Mynd: EFTA
Mynd: EFTA

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var ákveðið að setja á fót starfshóp fjögurra ráðuneyta undir forystu forsætisráðuneytisins til að undirbúa viðbrögð við nýlegri ákvörðun Eftirlitsstofnunar Efta (ESA) er varðar nýtingu náttúruauðlinda í þágu rafmagnsframleiðslu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

„Með ákvörðun dags. 20. apríl sl. beindi ESA þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að gerðar verði breytingar á lagaumhverfi sem varðar samninga við orkufyrirtæki um nýtingu náttúruauðlinda í opinberri eigu til rafmagnsframleiðslu. Með þeim breytingum verði betur tryggt að markaðsverð sé greitt fyrir slíka nýtingu og jafnframt skýrar kveðið á um hvaða verklag skuli viðhaft við ákvörðun markaðsverðs. Að mati ESA eru úrbætur nauðsynlegar til þess að ekki verði litið svo á að hér sé um ólögmæta ríkisaðstoð og röskun á samkeppni á raforkumarkaði að ræða,“ segir í tilkynningunni.

Einnig mælist ESA til þess að áður gerðir samningar við orkufyrirtæki um nýtingu verði teknir til skoðunar með tilliti til þess hvort þeir endurspegli markaðsverð og þeir endurskoðaðir ef svo er ekki, að því er varðar eftirstöðvar slíkra samninga. Stjórnvöld hafa einn mánuð til að fallast skilyrðislaust á tilmælin, annars hætta þau á að ESA opni formlega rannsókn vegna málsins.

Þær breytingar á lagaumhverfi sem ESA leggur til, myndu festa í sessi þær meginreglur og þá aðferðafræði sem hefur verið að mótast. Það gæti tryggt enn betur að verð sem orkufyrirtæki greiða fyrir aðgang að auðlindum í opinberri eigu sé ákveðið á markaðsforsendum.

Fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis verða í starfshópnum. Á næstu vikum mun starfshópurinn taka til skoðunar hvort rétt sé að fallast á tilmæli ESA og undirbúa viðbrögð að öðru leyti.  Óskað verður eftir viðræðum við orkufyrirtæki vegna áður gerðra samninga. Samráð verður haft við Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því sem tilefni er til. /EPE

Nýjast