Stjarnan og Akureyri skildu jöfn

Stjarnan og Akureyri Handboltafélag skildu jöfn, 28:28, er liðin mættust í Mýrinni í N1- deild karla í handbolta í kvöld. Staðan í hálfleik var 16:15 fyrir Stjörnuna. Eftir æsispennandi lokamínútur leit allt út fyrir að gestirnir að norðan myndu fara með sigur af hólmi, en Ragnar Helgason reyndist hins vegar hetja heimamanna er hann jafnaði metin fyrir Stjörnuna úr vítakasti í þann mund sem leiktíminn rann út.

Stjarnan nældi sér þar með í mikilvægt stig í botnbaráttu deildarinnar en Akureyri varð í leiðinni af mikilvægu stigi í toppbaráttunni.  

Oddur Gretarsson var markahæstur í liði Akureyrar í kvöld með 9 mörk, þar af 5 úr vítum, og þeir Heimir Örn Árnason og Árni Sigtryggsson skoruðu 5 mörk hvor. Í liði Stjörnunnar var Ragnar Helgason markhæstur með 7 mörk og Kristján Kristjánsson kom næstur með 6 mörk.

Eftir leikinn í kvöld er Akureyri með 14 stig í 4. sæti deildarinnar en Stjarnan situr í næstneðsta sæti með fimm stig.

Nýjast