„Bæjarbúar mæti á völlinn og styðji stelpurnar"

Nói Björnsson ásamt leikmönnum Þórs/KA í vor. „Stelpurnar eiga skilið að bæjarbúar sýni þeim stuðnin…
Nói Björnsson ásamt leikmönnum Þórs/KA í vor. „Stelpurnar eiga skilið að bæjarbúar sýni þeim stuðning með því að mæta á völlinn því þær hafa sannarlega unnið fyrir því að ná þetta langt.“ Mynd/Þórir Tryggvason.

Einn stærsti leikur í akureyrskri knattspyrnusögu fer fram á Þórsvelli í dag. Þá tekur Þór/KA á móti stórliði Wolfsburg frá Þýskalandi í 32-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu. Liðin mætast svo öðru sinni í Þýskalandi tveimur vikum síðar eða 26. september.

Wolfsburg er eitt allra besta kvennalið heims. Liðið er ríkjandi Þýskalandsmeistari sem og bikarmeistari og lék einnig til úrslita í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð þar sem liðið tapaði í framlengingu gegn Lyon. 

Nói Björnsson, einn forsprakka Þórs/KA, segir mikilvægt að fá góðan stuðning og að fólk fjölmenni á völlinn. Leikurinn í dag hefst kl. 16:30.

„Stelpurnar eiga það skilið að bæjarbúar sýni þeim stuðning og mæti á völlinn. Við vonum að fólk taki sér bara frí úr vinnu eða hætti aðeins fyrr þennan dag og mæti á völlinn. Við erum að vinna á fullu í því að búa til flotta umgjörð og það verður mikið líf og fjör á vellinum," segir Nói.


Athugasemdir

Nýjast