Steinn þeyttist af miklu afli í útidyrahurðina

Mikil mildi þykir að ekki varð alvarlegt slys þegar tæplega hálfs kg steinn þeyttist í útidyrahurðina á heimili hjónanna Guðmundar Jóhannssonar og Ingibjargar Þórarinsdóttur, að Hörpulundi 1 á Akureyri nýlga. Höggið var gríðarlega þungt og Ingibjörg, sem var heimavið, fann vel fyrir því.  

Hún hélt að einhverju hefði verið kastað í húsið af miklu afli en það sést vel á útidyrahurðinni hvar steinninn lenti og mátti litlu muna að hann færi í gegnum rúðu á hurðinni. Guðmundur telur fullvíst að steinninn hafi verið fastur á milli dekkja á ökutæki sem þarna fór um, en losnað og spýst í átt að húsinu, eina tíu metra. Steinninn lenti á hurðinni í um eins metra hæð en kastaðist svo eina sjö til átta metra til baka út á gangstétt. Guðmundur segir að ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum, ef einhver hefði verið að ganga þarna um þegar grjótið kom fljúgandi, svo mikið var höggið. Hann vill brýna fyrir fólki að passa upp á að ekki sé fastur steinn á milli dekkja á ökutækjum þess, slíkt geti skapað mikla hættu.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem Vikudagur flytur fréttir af atviki sem þessu, því fyrir um tveimur árum, þeyttist stór steinn, 2,6 kg að þyngd, af miklu afli í húsvegg á raðhúsi við Melateig og var höggið svo mikið að það kvarnaðist upp úr steinsteyptum veggnum og niðurfallsrenna frá þakinu, sem steininn lenti einnig á, lagðist saman. Steinninn hafnaði á veggnum og rennunni í um 120 cm hæð frá jörðu og hefði hann komið á húsið um einum metra norðar, hefði hann farið í gegnum gluggann á svefnherbergi þeirra Bjarna Jónassonar og Svövu Gunnarsdóttur.

"Þessi steinn hefði drepið hvaða naut sem er og ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum  hefði manneskja orðið fyrir honum," sagði Bjarni í samtali við Vikudag á sínum tíma.  Hann taldi líklegast að steinninn hefði verið á  milli hjóla á vörubíl og losnað með fyrrgreindum afleiðingum, eða þá að steinninn hefði hreinlega spýst undan slíkum bíl. Svava kona Bjarna, fann steininn undir þvottasnúrunum og taldi hann í fyrstu að honum hefði verið hent inn á lóðina frá götunni. Þegar Bjarni var svo sjálfur að slá blettinn nokkru síðar, sá hann ummerkin á húsveggnum og varð honum skiljanlega mjög brugðið.

Nýjast