Stefnt að því að sameina krafta á opnum fundi í Brekkuskóla

Opinn fundur verður haldinn í Brekkuskóla á Akureyri fimmtudaginn 22. janúar nk. kl. 18.00 - 21.00, sem ber yfirskriftina; Gleðilegt ár 2009. Þar verður farið yfir stöðuna eins og hún blasir við landsmönnum í dag og horft til framtíðar. Þrír frummælendur flytja erindi og á eftir taka umræðuhópar til starfa.  

Tilgangurinn með fundinum er að sameina kraftana og finna leiðir fyrir næstu skref hvort sem þau snúa að atvinnusköpun eða heimilisbókhaldi, bættum bæjarbrag eða almennri bjartsýni sem verður öllum til góðs. Markmiðið er að fólk fari af fundinum bjartsýnna og tilbúnara til að takast á við nýtt ár en það var þegar það mætti. Frummælendur á fundinum verða Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson forstjóri Saga Capital, Jón Björnsson rithöfundur og Inga Eydal hjúkrunarfræðingur. Fiskisúpa, brauð og kaffi í hléi og síðan verða umræðuhópar þar sem við gefum og þiggjum ráð og hugmyndir sem tengjast atvinnumálum, heimilinu, nýsköpun, ferðamálum, heilsu og frumkvöðlastarfi. Fjölmargir koma að fundinum enda margt í boði og möguleikarnir margir, segir í fréttatilkynningu. Sjá nánar á http://www.brostumedhjartanu.is/

Nýjast