Stefnt að sögusýningu í tilefni 100 ára afmælis UMF. Æskunnar

Ungmennafélagið Æskan stendur á tímamótum í ár þegar 100 ár verða liðin frá stofnun þess. Á þessum 100 árum sem liðin eru hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ýmislegt hefur breyst og félagsstarfið tekið stakkaskiptum. Til að minnast þessarar aldar sem liðin er frá stofnun félagsins er ætlunin að halda sögusýningu síðar á árinu með munum, myndum og með hjálp fundargerðabóka sem ná allt aftur til stofnunar félagsins.  

Til að geta haldið þessa sögusýningu þarf stjórn Æskunnar hjálp frá Ströndungum, bæði nýjum og gömlum. Allir þeir sem luma á myndum, munum eða einhverjum góðum sögum tengdum starfi Æskunnar eru beðnir um að deila þeim stjórninni. Ef allir leggjast á eitta verður hægt að heiðra minningu þessa félags á sem eftirminnilegastan hátt með glæsilegri sýningu. Öllu því sem fólk vill deila með stjórninni er hægt að koma á skrifstofu Svalbarðsstrandarhrepps. Einnig er hægt að hringja í Birki Örn í síma 825-6617 eða senda tölvupóst á birkir@66north.is. Lokafrestur til að koma upplýsingum eða munum á stjórn Æskunnar er föstudagurinn 16. apríl. Þetta kemur fram á vef Svalbarðsstrandarhrepps.

Nýjast