Stefnt að lokuðum fundi í Grímsey í mars

Grímsey.
Grímsey.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, segir að stefnt sé að íbúafundi í Grímsey þann 10. mars nk. og að öllum líkindum verði hann lokaður. Fyrirhuguðum fundi sem halda átti í Grímsey í janúar og blaðamannafundi á Akureyri daginn eftir var aflýst vegna veðurs. Mikill vandi blasir við Grímseyingum en eins og fjallað hefur verið um er komið að skuldadögum útgerðamanna í eynni við Íslandsbanka.

Aflaheimildir í Grímsey voru m.a. keyptar með lánum frá bankanum og voru þær settar sem veð. Bankinn hefur komið til móts við útgerðarmenn og lengt í lánunum. Akureyrarbær, Byggðastofnun og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar stóðu að fyrirhugðum fundi ásamt hverfisráðinu í Grímsey til að vinna úr vandanum.

Íbúar í Grímsey höfðu lýst yfir áhyggjum sínum af því að fundurinn sem átti fara fram í janúar væri opinn öllum og hvernig umræðan gæti orðið í kjölfarið og aðspurður segir Eiríkur Björn að líklega verði fundurinn í mars lokaður.

-þev

Nýjast