Stefnt að fjölmennasta Unglingalandsmótinu á Akureyri
Í dag voru undirritaðir samstarfsamningar á milli Ungmennafélags Akureyrar, Ungmennafélags Íslands og Akureyrarbæjar um framkvæmd Unglingalandsmóts UMFÍ sem fer fram í fyrsta skipti á Akureyri í sumar eða um verslunarmannahelgina. Þátttaka á unglingalandsmótum er vaxandi og er stefnt að því að mótið á Akureyri verði fjölmennasta unglingalandsmót sem haldið hefur verið með yfir 2.000 keppendum á aldrinum 11-18 ára og með heildarfjölda mótsgesta yfir 10 þúsund manns.
Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar. Þar segir ennfremur að Akureyri sé mikill íþróttabær með öflugt og fjölbreytt íþróttastarf og muni það speglast í framboði greina á mótinu næsta sumar þannig að sem flestir á aldrinum 11-18 ára finni tækifæri til að taka þátt í frábærum viðburði á Akureyri.
Á meðfylgjandi mynd eru talið frá vinstri: Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ, Sigurður Freyr Sigurðarson formaður UFA, Ingibjörg Ólöf Isaksen formaður íþróttaráðs og varaformaður unglingalandsmótsnefndar 2015 og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri og formaður unglingalandsmótsnefndar 2015.