Stefnir í að um 20 rými verði laus í þremur leikskólum

Á fundi skólanefndar Akureyrar í vikunni var farið yfir stöðuna við innritun barna í leikskóla. Þar kemur m.a. fram að alls var sótt um nýskráningar eða flutning milli leikskóla fyrir 381 barn sem fædd eru árið 2010 og fyrr. Af þeim fengu 328 foreldrar tilboð um leikskóla sem þeir settu í 1. sæti eða um tímasetningu sem þeir óskuðu eftir. Með tímasetningu er átt við að foreldrar óskuðu eftir plássi í leikskólum sem buðu upp á vorpláss, þrátt fyrir að þeir skólar hafi ekki verið settir í 1. sæti á umsókn fyrir barn.
Af þeim 53 umsóknum sem eftir voru, var hægt að innrita 12 börn í skóla sem foreldrar settu sem varaskóla á umsókn eða óskuðu sérstaklega eftir af öðrum ástæðum. Þá var 41 umsókn eftir. Hægt var að bjóða þeim foreldrum val um innritun í 5 skóla fyrir börn sín. Þar af komust 25 börn inn í þá skóla sem þeir völdu fyrir börn sín. 10 foreldrar hafa óskað eftir að bíða eftir að pláss losni í skólum sem þeir settu í 1. sæti og 6 foreldrar hafa enn ekki fengið úrlausn sinna mála. Haft verður samband við þá til að bjóða þeim aðrar lausnir en þeir voru búnir að velja. Alls er gert ráð fyrir að laus verði um 20 rými í 3 leikskólum eftir að búið er að ganga frá innritun þessara barna. Alls hafa borist 45 umsóknir fyrir börn sem ekki eru skráð með lögheimili í sveitarfélaginu. Gera má ráð fyrir að stór hluti þeirra flytjist til sveitarfélagsins.

Nýjast