Stefnir í 47 milljóna króna halla hjá VMA
Í ályktun frá skólanefnd Verkmenntaskólans á Akureyri koma fram miklar áhyggjur af rekstrarumhverfi skólans. Ágúst Torfi Hauksson, formaður skólanefndar VMA, hefur sent ályktunina fyrir hönd skólanefndar til menntamálaráðherra, þingmanna Norðausturkjördæmis og formanns allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Í ályktun skólanefndarinnar segir:
Á síðustu árum hefur rekstur skólans orðið sífellt erfiðari. Þrátt fyrir mikið aðhald á öllum sviðum stefnir nú í að skólinn verði rekinn með verulegum halla árið 2014. Enn hefur launastika reiknilíkansins, sem reiknar fé til rekstrar framhaldsskólanna, ekki verið leiðrétt og hefur mismunurinn verið um 20% á raunverulegum meðallaunum í skólunum og þeim launum sem líkanið gerir ráð fyrir. Þrátt fyrir að yfirvöld stefni að því að lækka þetta hlutfall á næsta ári mun muna um 12% sem þýðir tuga milljóna króna skekkju í rekstrarforsendum svo stórs skóla sem VMA.
Nú er svo komið að hlutfall launa er komið vel yfir 80% af rekstrarkostnaði. Þá þarf skólinn að greiða 12% af ráðstöfunarfé sínu í húsaleigu og til annars reksturs húsnæðis. Þetta þýðir að skólinn hefur aðeins 6-8% af fjárframlagi sínu til annars rekstrar. Hefur þetta komið niður á mörgum sviðum skólastarfsins eins og því að ekkert fé hefur verið afgangs síðustu árin til endurnýjunar tækja og búnaðar; hvorki í þágu hefðbundins náms, eins og á húsgögnum, tölvum eða sérhæfðum tækjum á sviði fjölbreytts verknáms skólans. Eftir margra ára samdrátt og hagræðingu er nú svo komið að skólinn á í erfiðileikum með að standa við skuldbindingar sínar gagnvart nemendum og gagnvart ríkissjóði og stefnir nú í 47 milljóna króna halla um næstu áramót, eða 3,5% af gjöldum yfirstandandi árs.