Stefnir í 100 m.kr. halla hjá Norðurþingi

Mynd/epe
Mynd/epe

Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti á fundi sínum á þriðjudag fjárhagsáætlun fyrir 2021 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2022-2024.

Fjárhagsáætlun 2021 var samþykkt með fimm atkvæðum meirihlutans.
Þrír fulltrúar B-lista greiddu atkvæði á móti og Hafrún Olgeirsdóttir, fulltrúi E-lista sat hjá.

Áherslur meirihlutans miða að því að verja störf hjá sveitarfélaginu og ljóst er að bjartsýni gætir um að umsvif iðnaðarstarfsemi á Bakka aukist á komandi árum með tilheyrandi atvinnusköpun og tekjuaukningu. Minnihlutinn gagnrýnir meirihlutann fyrir að ganga ekki lengra í að standa vörð um fyrirtækin á svæðinu með lækkun gjalda á fyrirtæki og íbúa á þessum viðsjárverðu tímum.

Í bókun meirihlutans kemur fram að fyrir árið 2020 hafi byrjað að hægjast á hagvexti sem sýndi sig m.a. í fækkun ferðamanna. „Í fjárhagsáætlun ársins var gert ráð fyrir að tekjur myndu aukast lítillega. Álögur á íbúa varðandi fasteignaskatt voru lækkaðar og gjaldskrár sveitarfélagsins tóku almennt litlum hækkunum. Nýgerðir kjarasamningar og heimsfaraldurinn COVID-19 hafa leitt af sér að kostnaður jókst hjá sveitarfélaginu. Í útkomuspá ársins 2020 stefnir því í tæplega 100 m.kr. halla,“ segir í bókuninni en ljóst er að gerð fjárhagsáætlunarinnar hefur mótast af Covid-19 heimsfaraldrinum.

Þá eru væntingar til tekjuaukningar hófstilltar en áhersla lögð á að verja störf og þjónustu hjá sveitarfélaginu.

„Gerðar hafa verið breytingar á launakjörum með því að segja upp fastri óunninni yfirvinnu, seinka launahækkunum stjórnenda og lækka laun kjörinna fulltrúa og nefndarmanna,“ segir jafnframt í bókuninni og væntingar gerðar til þess að  starfsemi PCC á Bakka komist á skrið fyrri hluta næsta ár og að önnur umsvif í iðnaði aukist í samræmi við viljayfirlýsingar við áhugasöm fyrirtæki.

Á Kópskeri er hafin uppbygging á landeldi á laxi og þar um kring hafa þónokkur smáfyrirtæki komist á legg á undanförnum misserum. „Við horfum til þess að eftir fækkun íbúa á árinu taki þeim aftur að fjölga á næsta ári. Við lítum jafnframt svo á að hér muni áfram verða blómleg ferðaþjónusta og önnur atvinnustarfsemi þegar heimsfaraldurinn verður ráðinn niður,“ segir í máli meirihlutans sem bendir á að fram undan séu tvö stór fjárfestingarverkefni, annars vegar bygging hjúkrunarheimilis og hins vegar bygging íbúðakjarna fyrir fatlaða. „Við teljum því ekki rétt að fækka starfsfólki innan stjórnsýslu sveitarfélagsins eða stofnana þess, heldur að taka á okkur ölduna og rísa upp aftur til áframhaldandi sóknar við uppbyggingu atvinnulífs, þjónustu og innviða og móttöku nýrra íbúa.“

Minnihlutinn bendir á í sinni bókun að staða ferðaþjónustunnar, sérstaklega minni fyrirtækja sé áhyggjuefni. „Blessunarlega hefur Norðurþing gengið í gegnum mikið hagvaxtarskeið undanfarin ár, með gríðarlegum fjárfestingum og tekjuaukningu sveitarfélagsins. Frá árinu 2013 til ársins 2021 er gert ráð fyrir að tekjur hafi aukist um 85%, úr 2,7 milljörðum króna í ríflega 5 milljarða. Sveitarfélagið Norðurþing ætti að vera eitt þeirra fáu sveitarfélaga sem eru vel í stakk búin til að mæta fjárhagslegum áskorunum sem fylgja Covid-19. Því miður er það ekki raunin.
Á tímum sem þessum á að skipta öllu máli að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki sveitarfélagsins, samhliða rekstrar hagræðingu og ögun í framkvæmdum. Að frumkvæði minnihluta hefur álagning fasteignaskatts verið lækkuð, en vegur ekki upp á móti þeim gríðarlegu hækkunum sem verið hafa undanfarin ár,“ segir í bókun minnihlutans sem tekur sérstaklega fram að áhersla meirihluta sveitarstjórnar að lækka framlög til íþrótta- og æskulýðsstarfsemi um 10%, eða um 13% að raungildi sé ekki viðunandi.  „Minnihlutinn mun ekki með nokkru móti geta stutt slíkar áherslur og leggur til að fjárframlag verði óbreytt á næsta ári að teknu tilliti til verðlagsbreytinga.“

 


Athugasemdir

Nýjast