Stefnir á 12 binda bókaröð
Sigurbjörn Benediktsson er 23 ára gamall kokkur frá Grenivík. Hann vinnur á Steikhúsinu í miðbæ Reykjavíkur en lætur kokkavaktirnar þó ekki nægja því á þessu ári gaf hann út sínar fyrstu tvær bækur. Hann er hvergi nærri hættur og stefnir á að serían muni telja 12 bækur. Bækurnar koma út á ensku og kallast þær Cook Your Ideas og eru aðgreindar með volume 1, 2 og svo framvegis.
Hver bók hefur sína áherslu, allt frá því hvernig á að smakka til mat til þess hvernig á að krydda og hvernig skal elda kjöt eða fisk, segir Sigurbjörn. Hann segir jafnframt að bækurnar séu ekki þessar hefðbundnu uppskriftabækur, því hann sé meira að hrinda fólki af stað í að elda sínar eigin hugmyndir óháð því hversu fært það sé í eldhúsinu. Sigurbjörn ákvað að birta ekki myndir af fullkláruðum réttum í bókunum heldur ferlinu sjálfu þar sem fólk verður oft fyrir vonbrigðum þegar það ber myndirnar saman við eigin rétt.
Skólaglósur verða að bókum
Hugmyndin að útgáfu bókanna kom þegar Sigurbjörn ætlaði að setja allar þær glósur sem hann hafði punktað niður í exel skjal til halda skipulagi. Hann gerði sér þá grein fyrir hversu miklu magni af upplýsingum hann hafði safnað í gegnum kokkaskólann og vinnuna og áttaði sig á að þarna gæti verið efni í bók eða bækur. Í febrúar á þessu ári setti Sigurbjörn hugmyndina sína inn á vefsíðu þar sem fólk deilir hugmyndum sínum með öðrum sem vilja koma eigin hugmyndum í framkvæmd. Það stóð ekki á viðbrögðunum og strax næsta dag hafði Sigurbjörn fengið tilboð frá fjórum aðillum sem vildu ganga beint í verkið.
Ég gat því bara valið úr besta tilboðið og eftir það voru hlutirnir fljótir að gerast. Nú vinnur Sigurbjörn með fólki í Bandaríkjunum og Bretlandi sem gaf út fyrstu bókina hans í apríl og þá seinni í haust. Bækurnar eru seldar á 73 heimasíðum út um allan heim meðal annars í Japan og í bókabúðum í 5 mismunandi löndum. Fyrsta prentun af hvorri bók var 1000 eintök.
Sellerí og sósa
Jólin hjá Sigurbirni eru ekki kerti og spil heldur sellerí og sósa og kemst hann lítið úr eldhúsinu. Það er líklega það versta við kokkalífið, að fá ekki að kíkja norður í þægilegheitin og hamborgarahryggin til mömmu og pabba. Ég næ þó kannski að bruna norður korter í jól og fæ þá ef til vill sneið af eftirréttinum sem er hin fræga Rafnsterta sem gengið hefur í gegnum marga ættliði. Sigurbjörn er ekki eini kokkurinn í fjölskyldunni því foreldrar hans og bræður starfa öll í sama geira.
-DP (Viðtalið birtist í Jólablaði Vikudags)