Sverrir segir að ekki séu nema um 10 ár frá því að starinn fór að verpa á Akureyri en mjög erfitt sé að gera sér grein fyrir fjölguninni á þessum tíma. Hann segir jafnframt að það sé ákveðinn misskilningur í gangi varðandi flóna sem fylgir staranum. Þetta sé þó samskonar fló og leggst t.d. á hænsni. Starinn verpir m.a. inni í húsum eða undir þakskeggjum og því hafi margir áhyggjur af flónni. Sverrir segir að flóin verpi eggjum sínum í hreiður starans og lifi á úrgangi sem þar er. Púpurnar, sem flóin skilur eftir sig, lifa svo af veturinn og ef starinn, eða ættingi hans, mætir ekki aftur til hreiðargerðar að vori, fara flærnar sem koma úr púpunum á flakk í leit að æti og þá m.a. inn í híbýli fólks í leit að lífveru með heitt blóð.
Sverrir segir að ef starinn er látinn í friði, sé lítil hætta á ferðum. Ef menn vilja hins vegar losna við hann, með því að loka götum, sem hann hefur komist í, sé nauðsynlegt að fjarlægja hreiðrið af staðnum eftir að ungarnir hafa yfirgefið hreiðrið síðla sumars. Starinn er staðfugl á Íslandi, líkt og t.d. svartþröstur og glókollur og það ræðst því mjög af tíðarfari hvernig þessum fuglum gengur að lifa af veturinn. Hlýnandi veðurfar hafi þó verið þeim hagstætt og fuglategundirnar breiðst út. Starinn er hópfugl á veturna og hann hefur verið tíður gestur m.a. á fóðrunarstöðum á Brekkunni á Akureyri.
"Starinn er hermikráka og þekkt eru dæmi um að hann hermi t.d. eftir söng lóunnar eða þjófavarnarkerfi bíla. Í nágrannalöndum okkar er starinn vinsæll garðfugl og þar er algengt að setja upp sérstaka varpkassa fyrir hann utan á hús eða í tré," segir Sverrir. Þeir bæjarbúar sem vita af staranum og hvar hann verpir á Akureyri eru beðnir að láta Sverri og Jón vita af því svo mögulegt verði að kortleggja útbreiðsluna. Netföng þeirra eru sth@akmennt.is og jonmagg@simnet.is