„Samningaferlið var bæði langt og strangt. Viðræður hófust í í október á síðasta ári og héldum við marga samningafundi heima í héraði og 14 hjá ríkissáttasemjara eftir að málinu var vísað til hans. 14 er ekki tala sem við heyrum á hverjum degi þegar talað er um fundi á þeim stað. Nú er málinu lokið og ég er mjög ánægður með samkomulagið sem starfsmenn samþykktu í dag. Samheldni starfsmanna og baráttuhugur þeirra átti stóran hlut í máli en búið var að boða til verkfalls þann 12. maí þar sem 98% sögðu já, en nú verður ekkert af því," segir Björn á vef félagsins.
Björn segir að fyrirtækið sé ungt og að verið sé að byggja það upp og því þurfi að ræða betur ýmis mál og koma í fastar skorður. „Við og forsvarsmenn Becromal ákváðum að vinna á samningstímanum að nýju samkomulagi þar sem tekið verður á ýmsum þáttum, endurskoðun vaktakerfis, kerfi um frammistöðuávinning, hæfnismat starfsmanna og greiðslur vegna þeirra, álags vegna efna- og rafmagnshættu ásamt hitaálagi, vaktstjóraálagi og yfirvinnuálagi en í mörgum öðrum sambærilegum samningum vega þessi atriði þungt í launum starfsmanna."
Samningurinn gildir frá 15. apríl sl. til 15. apríl 2012 og eru greiðslur til vaktavinnustarfsmanna sem eru við störf við undirritun samkomulagsins eftirfarandi:
Starfsmenn með eins árs starfsreynslu eða meira:
· Maí 2011 greiðist eingreiðsla kr. 300.000 fyrir þá starfsmenn sem hófu störf fyrir desember 2010.
· Mánaðarleg greiðsla kr. 60.000 frá 1. júní til loka gildistíma samkomulagsins eða þar til nýtt samkomulag hefur verið gert. Þetta gildir frá og með þeim mánaðarmótum þegar starfsmaður öðlast eins árs starfsreynslu.
Starfsmenn með innan við eins árs starfsreynslu:
· Maí 2011 greiðist eingreiðsla kr. 200.000 fyrir þá starfsmenn sem hófu störf fyrir desember 2010 og skerðist þessi greiðsla um kr. 40.000 fyrir hvern óunninn mánuð á tímabilinu desember 2010 til apríl 2011.
· Mánaðarleg greiðsla kr. 40.000 frá 1. júní til loka gildistíma samkomulagsins eða þar til nýtt samkomulag hefur verið gert.