Alls verða vélarnar í verksmiðjunni 62 og er ráðgert að þær verði allar komnar í gang árið 2011 og að þá verði starfsmenn um 90 talsins. Framleiðsla í verksmiðjunni hófst sl. haust og segir Gauti að þetta fyrsta ár, hafi gengið í samræmi við væntingar og lítið óvænt komið uppá. "Það er frekar að hlutinir hafi gengið betur en ráð var fyrir gert og við höfum þegar náð ágætum tökum á gæðum og afköstum."
Heildarkostnaður við uppbygginguna í Krossanesi er áætlaður um 10 milljarðar króna en ráðgert er að ársvelta fyrirtækisins verði um 14 milljarðar króna á ári, eða rúmur einn milljarður á mánuði. Húsnæðið sem fyrirtækið hefur yfir að ráða í Krossanesi er samtals rúmlega 11.000 fermetrar. Þar af er verksmiðjan í um 6.000 fermetra húsnæði en annað húsnæði er undir spenna, hjálparbúnað, varmaskipta, pökkun, verkstæði, lager, rannsóknarstofu og skrifstofu.
Rætt hefur verið um þann möguleika að stækka verksmiðju Becromal í Krossanesi og segir Gauti að ákvöðrun um málið verði tekin í ágúst á þessu ári. Ef til stækkunar kemur myndi starfsmönnum fjölga að minnsta kosti um 30 og þá störfuðu þar um 120 manns.