Starfsemi KA verði öll á einum stað

Framundan er mikil uppbygging á KA-svæðinu. Mynd/Þröstur Ernir
Framundan er mikil uppbygging á KA-svæðinu. Mynd/Þröstur Ernir

Aðalstjórn KA stóð fyrir opnum fundi í KA-heimilinu nýverið þar sem farið var yfir rekstrarumhverfi félagsins og framtíðar hugmyndir um uppbyggingu á félagssvæði KA. Á vef KA er samantekt yfir það helsta sem fram kom í máli formanns og varaformanns félagsins á fundinum.

Eiríkur S. Jóhannsson, varaformaður KA, kynnti framtíðarhugmyndir um uppbyggingu á KA svæðinu. Sagði hann stefnu KA að öll starfsemi félagsins verði á einum stað á núverandi svæði KA við Dalsbraut.

„Mikil tækifæri eru fyrir Akureyrarbæ ef öll starfsemi KA fer fram á KA-svæðinu því þá losnar t.d. það svæði sem Akureyrarvöllur er á auk þess sem íþróttahúsið við Laugargötu myndi losna en júdó- deild KA er þar með aðstöðu í dag,“ sagði Eiríkur.

Nýtt félagsheimili

Hugmyndir KA varðandi framtíðaruppbyggingu hafa verið í vinnslu um nokkuð langt skeið og hefur félagið kynnt drög að útfærslum á tveimur afmælum félagsins auk þess að hafa átt fundi með forsvarsmönnum Akureyrarbæjar. Meðal þess sem KA vill byggja á svæðinu er fjölnotahús, keppnisvöll með gervigrasi, stúkubyggingu sem stenst leyfiskerfi KSÍ fyrir keppni í efstu deild og nýtt fé- lagsheimili þar sem jafnframt verði æfingaaðstaða fyrir aðrar íþróttagreinar.

„Með slíkri uppbyggingu hér á KAsvæðinu verða tækifærin mýmörg til þess að stytta vinnudag barna m.a. með samþættingu frístundar og fjölbreyttu íþróttastarfi. Börn í 1-4 bekk ná þannig að klára íþróttastarf sitt ásamt frístund fyrir kl 16.00 á daginn,“ sagði Eiríkur.

Bærinn selji Akureyrarvöll

KA vill bera ábyrgð á framkvæmdinni með því að stofna rekstrar- og eignarhaldsfélag um uppbygginguna og sjá um fjármögnun á verkefninu. Fjármögnunin helst í hendur við leigu og rekstrarsamning við Akureyrarbæ til 15-20 ára. Jafnframt kom fram í máli Eiríks S. Jóhannssonar að það sé mat félagsins og fleiri að Akureyrarbær geti fjármagnað stóran hluta af verkefninu með sölu Akureyrarvallar sem sé í anda aðalskipulags bæjarins 2018 -2030.

„Við teljum að með þeim hugmyndum sem við höfum kynnt, náum við betri nýtingu á rekstri núverandi íþrótta- og skólamannvirkja sem og betri rekstri á öðrum íþróttagreinum sem gætu fundið sér heimili innan félagsins. Allt í góðu samhengi við kynnta stefnu ÍBA. Hefjist framkvæmdir á svæðinu á árinu 2019 má ætla að taka megi megnið af mannvirkjunum í fulla notkun á árunum 2020 og 2021,“ sagði Eiríkur.

Nýjast