Starfsemi dregist saman á flestum sviðum Sjúkrahússins á Akureyri

Starfsemi á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) í júní og júlí er nokkuð keimlík fyrra ári en þegar starfsemistölur fyrstu sjö mánuði ársins eru skoðaðar endurspeglast vel þau áhrif sem COVID-19 faraldurinn hefur haft á hefðbundna starfsemi sjúkrahússins. Þetta kemur fram í pistli Bjarna Jónassonar forstjóra SAk á heimasíðu félagsins.

Miðað við sama tímabil á síðasta ári fækkaði komum á dagdeildir um 10% og göngudeildarkomum um 21%. Komur á bráðamóttöku voru um 13% færri og farið var í 17% færri sjúkraflug. Skurðaðgerðum fækkaði um 29%. Fæðingar voru 215 og fjölgaði um 2 frá fyrra ári. Þá fækkaði legudögum um 14% og rannsóknum fækkaði á bilinu 8-15%.

Þar kemur einnig fram að viðbragðsstjórn hefur lagt grunn að útfærslu vinnulags þannig að hefðbundin starfsemi gangi eðlilega og á sama tíma verði viðbragð til staðar að sinna COVID-19 grunuðum og smituðum sjúklingum.


Athugasemdir

Nýjast