Stálþilið „fræga” liggur á hafsbotni

Stálþilið „fræga", sem væntanlegt var til Akureyrar og nota átti í lengingu Oddeyrarbryggju til austurs, liggur nú á hafsbotni vestur af Garðskaga. Það var í opnum gámum sem tók út af flutningaskipinu Kársnesi, er skipið fékk á sig brotsjó í vikunni. Því er talið ljóst að ekki verði ráðist í framkvæmdir við lengingu bryggjunnar fyrr en í haust, eftir að vertíðinni í tengslum við skemmtiferðaskipin lýkur. Gunnar Arason yfirhafnsögumaður sagði að þessi viðbót hafi átt að vera orðin viðleguhæf fyrir 1. júní nk. Einhvern tíma tæki hins vegar að afgreiða nýtt efni erlendis og því ljóst að ekkert verði úr framkvæmdum fyrir sumarið. Lengja á Oddeyrarbryggju um 60 metra og verður heildarlengd viðlegukantsins þá orðin um 200 metrar. Frétt Vikudags frá því í október í haust vakti mikla athygli, þegar Hörður Blöndal hafnarstjóri sagðist ekki taka við efninu í lengingu Oddeyrarbryggju, kæmi það landleiðina frá Reykjavík eins og til stóð á þeim tíma. Hann sagði það prinsippmál, þar sem verið væri að vinna að því stækka höfnina og efla. Hörður hafði sigur og efnið átti að koma sjóleiðina frá Reykjavík til Akureyrar, jafnvel í þessari viku.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF Líf, fann í gærmorgun tvo gáma af fimm sem fóru fyrir borð af Kársnesinu en skipið var þá að koma frá Danmörku. Varðskip Landhelgisgæslunnar var sent á staðinn og tók gámana í tog til lands.

Nýjast