Karlmaður á Akureyri hefur verið dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir fjársvik, nytjastuld og umferðarlagabrot. Ákærði stal bíl í ágúst í fyrra og ók bílnum undir áhrifum áfengis og fíkniefna með þeim afleiðingum að bíllinn hafnaði á ljósastaur á gatnamótunum við Bugðusíðu á Akureyri. Hann hélt för sinni áfram um Austursíðu og síðan suður Hlíðarbraut, þar sem hann ók á umferðarskilti á gatnamótum Hlíðarfjallsvegar.
Hann er einnig ákærður fyrir að svíkja út veitingar á veitingastaðnum Greifanum á Akureyri fyrir tæplega tíu þúsund krónur í júlí í fyrra. Þar gæddi hann sér á mat, vitandi þess að hann gæti ekki borgað fyrir hann.
Ákærði á langan sakaferil að baki, m.a. fyrir fíkniefnabrot, umferðarlagabrot, brot gegn valdstjórninni og þjófnað.
Fyrir dómi lýsti ákærði iðrun sinni og einbeittum vilja til að snúa lífi sínu til betri vegar. Auk fangelsisvistar var ákærði sviptur ökuréttindum ævilangt. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra.