Stækkun Glerártorgs boðin út á ný

Smáratorg ehf. hefur á ný auglýst eftir tilboðum í stækkun verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorgs á Akureyri. Eins og fram kom í Vikudegi nýlega, barst ekkert tilboð í verkið í útboði á dögunum. Þá var m.a. talið að hinn þröngi tímarammi sem var settur hafi vegið þungt. Reiknað hafði verið með að hefja framkvæmdir á næstunni og taka nýja húsið í notkun 1. nóvember nk. með 30 nýjum verslunum. Samkvæmt nýja útboðinu skal verkinu nú að fullu lokið 30. apríl 2008. Um er að ræða viðbyggingu og breytingar á eldra húsnæði. Viðbyggingin er á tveimur hæðum að hluta. Heildarflatarmál hennar er um 10.000 m², grunnflötur er um 8.200 m² og 2. hæð er um 1.800 m². Tilboðið nær til uppsteypu, frágangs á sameiginlegum rýmum og frágangs að utan. Ganga skal frá um 17.000 m² lóð sem fylgir þessum hluta. Verslunarrýmum skal skila tilbúnum til innréttinga. Ennfremur er verkið fólgið í breytingum á tveimur stórum verslunarrýmum í núverandi verslunarmiðstöð, alls um 3.700 m².

Nýjast