Stækkun á flugstöð bætt inn á fjárlögin

Líkan af viðbyggingu flugstöðvar á Akureyrarflugvelli.
Líkan af viðbyggingu flugstöðvar á Akureyrarflugvelli.

Ríkissjóði verður heimilt að kaupa eða leigja húsnæði til að stækka flugstöðina á Akureyri samkvæmt breytingatillögu meirihluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga. Í drögum að samgönguáætlun var ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni til uppbyggingar á Akureyrarflugvelli og var það harðleg gagnrýnt.

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir nauðsynlegt að hafa þessa heimild til staðar ef t.d KEA-hugmyndin á að verða að veruleika. „Þannig að þetta er stórt skref í þá átt að skoða þá hugmynd alvarlega,“ segir Njáll Trausti.

Eins og fjallað var um í fyrra bauðst KEA til að reisa viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli og leigja ríkinu. Málið hefur hins vegar lítið þokast áfram undafarna mánuði. Njáll Trausti segist áhugasamur um að fara þá leið að KEA reisi byggingu sem ríkið taki svo við.

„Mér hefur alltaf hugnast sú hugmynd vel, hún er áhugaverð og spennandi,“ segir Njáll Trausti.


Athugasemdir

Nýjast