„Stækkar skíðasvæðið til muna“

Ný stólalyfta verður tekin í notkun næsta vetur.
Ný stólalyfta verður tekin í notkun næsta vetur.

„Þessi gjöf hefur þá þýðingu að við náum að klára það verkefni okkar að kaupa og koma nýrri lyftu upp,“ segir Geir Gíslason formaður Vina Hlíðarfjalls. Samherjasjóðurinn gaf félaginu styrk til kaupa á nýrri skíðalyftu þegar afhending úr sjóðnum fór fram sl. helgi. Samherji gefur 80 milljónir til kaupa á stólalyftu.

Vinir Hlíðarfjalls höfðu þegar gert samning við Akureyrarbæ um kaup og uppsetningu á lyftunni. Stólalyftan og framkvæmdin sjálf kostar samanlagt 363 milljónir. Nýja lyftan er 1.238 m og er áætlaður ferðatími í lyftunni 8,5 mínútur. Samanborið er Fjarkinn stólalyftan 1.050 m og ferðatími 6,5 mín. Lyftan verður sett upp næsta sumar og tekin í gagnið veturinn 2018/2019. Hún verður staðsett sunnan við Fjarkann og mun ná langleiðina upp á topp.

Geir segir þetta mikla bót fyrir skíðasvæðið. „Þetta stækkar skíðasvæð­ ið mikið og t.d. verður hægt að renna sér niður dalinn og beint í lyftuna. Þá er stromplyftan farartálmi fyrir marga þar sem hún er í miklum bratta og yfirleitt eru toglyftur ekki notaðar í þessum halla erlendis. Þannig að þetta verður mikil breyting,“ segir Geir.

Akureyrarbær mun leigja lyftuna af Vinum Hlíðarfjalls og reka hana næstu 15 árin. „Ég er sannfærður um að þetta muni gera heilmikið fyrir svæðið. Þetta breytir öllu og mun trekkja mikið að. Hlíðarfjall er okkar stóriðja yfir veturinn og er það sem dregur fólk hingað,“ segir Geir Gíslason.

Vinir Hlíðarfjalls hafa stutt við rekstur skíðasvæðisins frá árinu 2006.

Afkastagetan eykst um fjórðung

Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli, segir lyftuna opna nýjar skíðaleiðir fyrir hinn almenna skíðamann. „Margir hafa ekki treyst sér til þess að fara í Stromplyftuna vegna þess hve brött hún er og svo finnst fólki óþægilegt að nota hana. Þess vegna veigraði það sér við að fara alla leið upp nema þá á tyllidögum. Afkastageta svæðisins kemur til með að aukast um rúmlega 24%. Þá mun skíðaleiðum fjölga og gera brekkurnar lengri,“ segir Guð­mundur.

Nýjast