Stækka þarf svæðið við Hamra og klára uppbyggingu

Á aðalfundi Hamra útilífsmiðstöðvar skáta á Akureyri var ítrekuð sú beiðni við Akureyrarbæ að hraða vinnu við stækkun svæðisins á Hömrum til norðurs sbr. fyrri samþykktir þar um. Skorað er á bæjaryfirvöld að tryggja fjármagn til verksins í ár og næstu ár eftir því sem framkvæmdum miðar áfram.

Segir í greinargerð að vegna fjölgunar ferðamanna, breytts ferðamáta og ferðatíma tjaldgesta og mikils álags á tjaldflatir á Hömrum, ásamt lokun tjaldsvæðisins við Þórunnarstræti sé mjög mikilvægt að framkvæmdum við tvær nýjar tjaldflatir norðan Hamra verði hraðað eins og kostur er. Þá var einnig rætt um samning um uppbyggingu og eignarhald á fundinum. Í greinargerð segir að í tilefni af því að liðin séu 20 ár frá því að formleg starfsemi útilífsmiðstöðvarinnar að Hömrum hófst sé skorað enn og aftur á bæjaryfirvöld að ganga til samninga við skátahreyfinguna um uppbyggingu útilífsmiðstöðvar.

Árið 1998 var gerður rekstrarsamningur á milli skátafélagsins Klakks og Akureyrarbæjar um rekstur tjaldsvæðis Akureyrar. Í samningnum er m.a. tekið fram að litið sé á samninginn sem fyrsta skrefið að samningi milli félagsins og bæjarins um uppbyggingu nýrra tjaldsvæða að Hömrum o.s.frv. Segir að svæðið að Hömrum hafi verið formlega opnað árið 2000 og hafi starfsemin aukist ár frá ári og er tjaldsvæðið nú eitt af fjölsóttustu og vinsælustu tjaldsvæðum landsins með fyrirmyndar aðstöðu og þjónustu, sem er í boði allt árið.

Árið 2008 var gerður nýr rekstrarsamningur um tjaldsvæðin þar sem m.a. var kveðið á um að samningurinn væri skref í átt að frekari samningi um uppbyggingu, rekstur og eignarhald framkvæmda á svæðinu. Samningur þessi var til 5 ára og hefur verið endurnýjaður óbreyttur síðan til tveggja ára í senn. Við gerð rekstrarsamningsins 2008 var endanlegri samningagerð um uppbyggingu og eignarhald slegið á frest.

„Það er von okkar að nú verði gengið til samninga að nýju og þeim lokið með undirritun heildarsamnings,“ segir í tillögunni.


Nýjast