Staðfesting aðalskipulags Hörgárbyggðar merk tímamót

Í byrjun vikunnar var aðalskipulag Hörgárbyggðar 2006-2026 staðfest af umhverfisráðherra og hefur þar með öðlast gildi. Þetta er fyrsta aðalskipulag fyrir það svæði sem sveitarfélagið nær yfir. Staðfesting aðalskipulagsins eru merk tímamót í sögu sveitarfélagsins en skipulagið mun auðvelda framþróun byggðar og atvinnulífs í sveitarfélaginu á næstu árum.  

Jafnframt þarf skipulagið að vera í sífelldri endurskoðun til að hægt sé bregðast við því að forsendur þess eru háðar stöðugum breytingum. Skipulagsvinnan sjálf stóð yfir í tæplega fjögur ár og virkan þátt í henni tóku allir fulltrúar í sveitarstjórn og skipulagsnefnd á tveimur kjörtímabilum, tveir sveitarstjórar og allir aðrir sem komu á þrjá vel sótta kynningar- og umræðufundi um skipulagstillöguna á meðan hún var í mótun. Mestu þungi vinnunnar hvíldi þó á skipulagsráðgjafanum, Yngva Þór Loftssyni, og aðstoðarfólki hans á landslagsarkitektastofunnni Landmótun sf. í Kópavogi. Þetta kemur fram á vefsíðu Hörgárbyggðar.

Nýjast