Staða sauðfjárbænda viðunandi og hefur heldur batnað

Þórarinn Ingi Pétursson bóndi á Grýtubakka, önnum kafinn við réttarstörf í Glúfurárrétt.
Þórarinn Ingi Pétursson bóndi á Grýtubakka, önnum kafinn við réttarstörf í Glúfurárrétt.

Þórarinn Ingi Pétursson á Grýtubakka í Grýtubakkahreppi var kjörinn formaður Landsamtaka sauðfjárbænda á aðalfundi samtakanna nýverið.  Um 1.600 bændur eru í samtökunum. „Staða sauðfjárbænda er viðunandi um þessar mundir, hagur okkur hefur heldur vænkast undanfarin misseri,“ segir Þórarinn.  „Það má segja að við séum heldur að sækja í okkur veðrið, bæði  á innlendum og erlendum mörkuðum, verðið hefur verið að potast upp og er orðið nokkuð viðunandi fyrir okkur bændur.“

Þórarinn segir að afkoma afurðastöðva hafi lagast mikið að undanförnu og það hafi áhrif á afkomu bænda til hins betra.  Afurðarstöðvar geti í ljósi betri afkomu greitt bændum betra verð fyrir sínar afurðir, en það hafi ekki komið niður á neytendum, heldur sé alfarið til komið vegna hagræðingar innan afurðastöðvanna.  „Breyttur og bættur rekstur afurðastöðvanna skilar sér í betri afkomu hjá okkur bændum.“

Þórarinn segir að sauðfjárbændur þurfi nú sem oft áður að verja sína stöðu, mikið sé um upphrópanir í fjölmiðlum og oft og tíðum farið með rangt mál varðandi málefni þeirra.  Það gildi til að mynda um nýlegar umræður um lambalæriskaup Íslendings í Noregi um nýliðna páska.

Unnið er að fjölda mála er varða sauðfjárbændur að sögn Þórarins, m.a er verið að endurskoða gæðastýringaþáttinn um þessar mundir, til dæmis það sem snýr að landnýtingu.  „Við erum að endurskoða þann þátt, sauðfjárbændur eru miklir landgræðslumenn og eiga stóran þátt í því að græða upp landið og halda því við,“ segir hann.  Þá eru umhverfismál einnig til skoðunar. „Við viljum sjá reisuleg býli og við eigum að bera höfuðið hátt og vera stolt af því að vera bændur,“ segir hann.

Þá nefnir hann að afurðir sauðfjárbænda séu eftirsóttar um þessar mundir og gildi um nánast allar afurðir, ekki bara kjötið, heldur líka ull, gærur og ýmislegt annað sem til fellur við slátrun og það sé gott.  „Það mun skila sér til lengri tíma litið,“ segir hann.

Endurmenntun fyrir bændur er í boði og hafa til að mynda sauðfjárræktarskólar notið vinsælda og verið vel sóttir.  Einnig er í boðið námskeið um betri búrekstur en Þórarinn segir að alltaf megi gera betur og allir geti bætt sinn búrekstur. Loks nefnir hann að vonir sauðfjárbænda standi til þess að gildandi búvörusamningur verði framlengdur um þrjú ár og bændur hafi óskað óformlega eftir slíkri framlengingu.

 

Nýjast