Sorphirðugjald gæti hækkað um 20%

Á innfelldu myndinni er Silja Jóhannesdóttir.
Á innfelldu myndinni er Silja Jóhannesdóttir.

Það liggur fyrir að sorphirðukostnaður Norðurþings hækkaði umtalsvert eftir síðasta útboð. Samið var við Íslenska Gámafélagið vegna söfnunar, flutnings, afsetningar og endurvinnslu úrgangs ásamt rekstri móttökustöðvar á Húsavík fyrir sveitarfélagið Norðurþing 2020-2024. Samningurinn byggir m.a. á útboðs- og verklýsingu frá því í janúar 2020 og tilboði fyrirtækisins frá 29. febrúar 2020.

Rekstraráætlun málaflokksins „08 Hreinsunarmál“ fyrir árið 2021 gerir ekki ráð fyrir að rekstrarkostnaður verði innan þess ramma sem málaflokknum hefur verið úthlutað í tengslum við fjárhagsáætlun 2021. Skipulags- og framkvæmdaráð telur mikilvægt að tekin verði afstaða í ráðinu til þess hvernig mæta skuli fyrirliggjandi kostnaðarauka í tengslum við sorphirðu í sveitarfélaginu. Á fundi ráðsins var bókað að horft sé til þess að hækkun á sorphirðugjaldi verði 20 prósent;  að því gefnu að komið verði til móts við þá hækkun með lækkun annara álagningarliða þannig að álögum á íbúa verði stillt í hóf. Málinu var vísað til byggðarráðs sem frestaði afgreiðslu á fjárhagsáætlun málaflokksins fyrir 2021 þar til gjaldskrár liggja fyrir.

Rekstur sorpmála er stærsti liður málaflokksins sem um ræðir innan sveitarfélagsins. Silja Jóhannesdóttir, formaður skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings sagði í samtali við Vikublaðið að gatið til að reka þennan málaflokk sé orðið það stórt að mjög erfitt verði að komast hjá því að hækka gjöld á íbúa. „Þetta er þjónustuliður sem á að standa undir sér samkvæmt lögum. Við höfum reyndar verið að greiða með þessu líkt og önnur sveitarfélög og það er enn þá gert víðs vegar um landið. Okkur langar hins vegar til að stíga einhver skref til að minnka gatið í málaflokknum að því gefnu að til komi lækkun á  útgjaldaliðum í öðrum málaflokkum á íbúa. Yfir það heila reikna ég með að það verði einhver hækkun gjalda á íbúa en við viljum hafa þessar hækkanir hóflegar. Við í skipulags- og framkvæmdaráði erum bara að bíða eftir sviðsmynd frá byggðarráði hvort að þetta sé möguleiki,“ útskýrir Silja.


Athugasemdir

Nýjast