„Soldið erlendis“

Ragnar Hólm heldur sýningu á nýjum vatnslitamyndum í Kaktus um helgina, „Soldið erlendis.“ Titill sýningarinnar vísar til námskeiðsferða sem Ragnar hefur farið til ólíkra landa á síðustu árum og endurspegla verkin þá tækni sem þar hefur verið numin. Einnig er vísað til slanguryrðis þegar menn segja að eitthvað sé „soldið erlendis“ og meina þá að það beri keim af útlöndum en sé ekki heimóttarlegt.

„Ég hef verið á námskeiðum hér og þar síðan 2015 og var á tveimur námskeiðum í Madríd núna í haust þar sem ég lærði ýmislegt, annars vegar af tælenskum málara og hins vegar spænskum. Mig langar þannig að draga fram ólíka tækni á sýningunni og skreyti hana líka með nokkrum textum sem eru eins konar minningarbrot frá ferðum mínum um önnur lönd þar sem ég hef sótt námskeið,“ segir Ragnar um sýninguna.

Opið verður í Kaktus, Strandgötu 11b, frá kl. 20-23 á föstudagskvöldið og 14-17 á laugardag og sunnudag. Í tengslum við sýninguna ætlar Ragnar að halda stutt námskeið í vatnslitum á sunnudeginum frá kl. 14-18. Áhugasamir geta haft samband við hann á Facebook eða sent tölvupóst á info@ragnarholm.com.


Nýjast