Sólbrunninn Vinur í búri

Vinur unir sér vel í búrinu.
Vinur unir sér vel í búrinu.

Lausaganga katta í Norðurþingi er með öllu óheimil og hefur verið um árabil. Sitt sýnist hverjum um það bann og blossa upp umræður um lausagöngu katta með reglulegum hætti á samfélagsmiðlum. Það gerðist einmitt nú fyrir skemmstu þegar Rúv birti á vef sínum brakandi ferska frétt um fyrrnefnt bann en umfjöllunin kom í kjölfar umræðu um lausagöngu katta á Akureyri.

Kattaeigendur á Húsavík virða flestir lög og reglur um kattahald þó þeir kunni að hafa á þeim ýmsar skoðanir og sumir þeirra nota frumlegar aðferðir til að halda „inni“ köttum sínum ánægðum. Einn þessara kattaeigenda er Guðný María Waage. „Ég á 15 ára gamlan útikött sem heitir Vinur og fékk að leika lausum hala í Hafnafirði þar til við fjölskyldan fluttum til Húsavíkur þegar Vinur var 12 ára gamall,“ segir Guðný í samtali við Vikublaðið.

Guðný María

Hermann Örn Sigurðsson, eiginmaður Guðnýjar gerði sér lítið fyrir og smíðaði heljarinnar útibúr fyrir Vin sem hann notar mjög mikið en búrið er smíðað utan um glugga á húsi þeirra hjóna sem alltaf er opinn. Vinur unir sér afar vel í búrinu og er þar öllum stundum nema þegar viðrar sérstaklega illa. Þar ýmist flatmagar hann í sólinni eða brýnir klærnar á birkitré sem þar hefur verið komið fyrir. Að sögn Guðnýjar er Vinur svo mikill sólbaðsáhugaköttur að hann sólbrann fyrir skemmstu. Hún segir að það sé mikilvægt að kattaeigendur sýni ábyrgð og hugi að öryggi dýra sinna og taki tillit til annarra.

Á heimilinu er einnig stór þýskur fjárhundur eða séfer en Guðný segir að það fari ekkert á milli mála að það er Vinur sem ræðu á heimilinu. „Þeir deila t.d. vatnsskál en hundurinn bíður alltaf þar til Vinur er búinn að drekka áður en hann vogar sér að svala þorsta sínum.“


Athugasemdir

Nýjast