Söguvarða til minningar um fyrsta sjónvarp á Íslandi var afhjúpuð í vikunni við Eyrarlandsveg á Akureyri. Um þessar mundir eru 80 ár liðin frá því að fyrst var horft á sjónvarp hér á landi en það var einmitt á Akureyri. Það voru þeir Grímur Sigurðsson síðar útvarpsvirkja meistari og F.L. Hogg breskur verkfræðingur sem kom hingað á vegum Arthurs Gook sem þetta gerðu og notuðu að hluta til tæki sem þeir höfðu fengið frá Bretlandi og að hluta tæki sem þeir smíðuðu sjálfir. Háskólinn á Akureyri í samstarfi við Akureyrarbæ og Ásprent Stíl standa að uppsetningu söguvörðunnar. Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs við HA, afhjúpaði söguvörðuna en henni til aðstoðar var Birgir Guðmundsson dósent við félagsvísindadeild HA.