Á leikskólanum Tröllaborgum á Akureyri er unnið með lífsleikni og á vorönninni var samkennd sérstaklega tekin fyrir. Börnin máluðu myndir og héldu sölusýningu. Ákveðið var að ágóðinn rynni til þeirra sem minna mega sín í heiminum og hefðu lítinn aðgang að hreinu vatni.
Börnin á deildinni Bergi hafa lært með þessari söfnun að ekki er sjálfgefið að hafa aðgang af hreinu og góðu varni eins og við höfum hér á Íslandi.
Fyrr í þessum mánuði heimsóttu krakkarnir Glerárkirkju, þar sem peningarnir voru afhentir. Þeir verða notaðir til að gera vatnsbrunn í Malavi, þannig að um fimmtíu manns fái hreint vatn. Ragnheiður Sverrisdóttir djákni tók á móti gjöfinni og sýndi krökkunum muninn á hreinu og menguðu vatni.