Snorra var sagt upp störfum hjá Akureyrarbæ, vegna ummæla um samkynhneigð sem hann lét falla á bloggsíðu sinni. Sú uppsögn var dæmd ólögmæt í Hæstarétti í febrúar og nú hefur lögmaður sent Akureyrarbæ kröfu, fyrir hönd Snorra. Þar er gerð grein fyrir bótakröfu vegna launa sem hann varð af, eins og hún var reiknuð af dómskvöddum matsmanni þann 1. maí á síðasta ári. Þá hafði nýlega fallið dómur í héraðsdómi, Snorra í vil, en Akureyrarbær ákvað stuttu síðar að áfrýja dómnum til Hæstaréttar.
Bótakrafan hljómar upp á tæplega 8 milljónir króna með vöxtum frá því í maí, en lögmaður Snorra vill ná samkomulagi um útreikning kröfunnar frá því í maí og þar til að dómur féll í Hæstarétti. Líklegt er því að þessi upphæð verði hærri.
Þá er gerð krafa um fjórar milljónir í miskabætur. Lögmaður Snorra tekur fram að krafan sem slík ætti ekki að vera umdeild. Annað gæti átt við um upphæðina og er hún sett fram ósundurliðuð, svo Akureyrarbær geti komist að niðurstöðu á eigin forsendum áður en viðræður hefjast. Takist ekki samkomulag um bæði bætur og miskabætur, verður málinu vísað til dómstóla, er segir á vef Rúv.
Bréfið hefur verið tekið fyrir hjá bæjarráði Akureyrarbæjar, sem fól bæjarstjóra og -lögmanni að leita samninga við lögmann Snorra.