06. desember, 2007 - 16:13
Fréttir
Snjóruðningstæki hafa verið á ferðinni á Akureyri frá því um helgina og að sögn Gunnþórs Hákonarsonar hjá framkvæmdadeild bæjarins, er stefnt að því að ljúka snjómokstri í bænum í dag eða í fyrramálið. Töluverður klaki hefur myndast á götum bæjarins í umhleypingunum að undanförnu og í einstaka tilfellum hefur verið eins og ökumenn hafi verið að aka á þvottabretti. Gangandi vegfarendur hafa átt erfitt með að fóta sig í hálkunni og mun fleiri hafa leitað til slysadeildar Sjúkrahússins á Akureyri liðna daga en vant er. Mörgum hefur orðið hált á svellinu, hrasað og hlotið beinbrot, eins og fram kemur í Vikudegi í dag.