Snjókarlinn á Ráðhústorgi hefur tekið á sig mynd á ný

Nú stendur hann stoltur á Ráðhústorgi með sinn hatt, nef og augu, snjókarlinn sem lokið var við að hlaða upp aftur í gær en hann hafði farið  heldur illa í talsverðum hlýindum nú á dögunum. Að undirlagi Akureyrarstofu voru vaskar stúlkur úr 4. flokki Þórs í fótbolta fengnar til að hlaða karlinn upp aftur með dyggri aðstoð foreldra sinna og starfsmanna bæjarins. Sérstakur listrænn ráðunautur við verkið var Hallgrímur Stefán Ingólfsson.

Upprisinn snjókarlinn er táknrænn fyrir Páskaævintýrið á Akureyri, sem hófst fyrir síðustu helgi með glæsilegri dagskrá við allra hæfi hvort sem fólk sækist eftir menningu, útivist eða annars konar afþreyingu.  Snjókarlinn setur skemmtilegan svip á miðbæinn og það mun samhliða svigið í Gilinu á Föstudaginn langa án efa gera líka.  Keppnin hefst klukkan 19.30 og meðal keppenda eru Björgvin Björgvinsson skíðakappi frá Dalvík, Kristinn Magnússon fyrrum ólympíufari, Tómas Leifsson einnig fyrrum ólympíufari, Brynja Þorsteinsdóttir skíðakona og svo hefur einum frambjóðanda úr hverjum flokki sem býður fram í kjördæminu verið boðin þátttaka.  

Á laugardaginn verður ís og kuldi í aðalhlutverki í Gilinu þegar stórir ísklumpar verða að listaverkum í höndum Hallgríms Sigurðarson og kollega hans frá Friðriki V.  Þeir munu hefjast klukkan fjórtán og gera ráð fyrir að verkinu verði lokið um klukkan fjögur.

Allar nánari upplýsingar um dagskrá Páskaævintýris 2009 er að finna á vefnum www.visitakureyri.is  

Nýjast