Finnur Aðalbjörnsson var einn vélsleðamannanna. ,,Við vorum í kaffipásu og skyndilega fór bara öll hlíðin af stað, alveg frá fjallstoppi. Það höfðu komið þarna smá spýjur áður en við komum á svæðið en þetta flóð var rosalega stórt. Það náðu allir að komast undan flóðinu á hlaupum eða á sleðunum fyrir utan einn sem lenti í flóðinu. Hann var með ýlu á sér eins og við allir reyndar og við fundum hann á tveggja metra dýpi eftir nokkrar mínútur. Við hefðum aldrei fundið hann ef hann hefði ekki verið með ýluna" sagði Finnur. Sleði mannsins sem lenti í flóðinu fannst 20 metrum neðar. Maðurinn sem lenti í flóðinu var fluttur brott með þyrlu og er ekki vitað um meiðsli hans.