Þórsarar tóku á móti Snæfellingum í Iceland Expressdeild karla í körfubolta í kvöld í Höllinni. Voru það gestirnir sem fóru með sanngjarnan sigur af hólmi 74-56 en munurinn var þó helst til stór miðað við gang leiksins. Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en eftir hann leiddi Snæfell 25-20. Eins og tölurnar gefa til kynna var sóknarleikurinn í hávegum hafður í leikhlutanum, nokkuð sem átti ekki eftir að verða raunin í leiknum.
Annar leikhluti var skelfilegur að hálfu heimamanna sóknarlega, þeir skoruðu ekki nema 6 stig í leikhlutanum en til allrar hamingju fyrir þá var varnarleikur liðsins góður og gestirnir náðu því ekki meira en 13 stiga forskoti fyrir hálfleik 39-26.
Þriðji leikhluti var besti leikhluti Þórsara í leiknum, þeir léku sterka vörn og ágætis sóknarleik, það dugði þó ekki til þess að minnka muninn meir en um stig og leiddu Snæfellingar með 12 stigum, 54-42 þegar flautað var til síðasta leikhluta.
Mikil spenna virtist ætla að hlaupa í leikinn í fjórða leikhluta þegar heimamenn náðu að minnka munin í 8 stig þegar um 8 mínútur voru til leiksloka. Gestirnir voru hins vegar ekki lengi að slökkva í þeim vonum því þeir svöruðu með fimm stigum í röð og munurinn orðinn 13 stig þegar 7 mínútur voru eftir. Leikurinn var í jafnvægi næstu mínútur og munurinn alltaf á bilinu 10-12 stig. En þegar um 3 mínútur voru eftir virtust Þórsarar nánast gefast upp og Snæfellingar kláruðu leikinn auðveldlega með 18 stiga sigri 74-56.
Þórsarar hafa nú tapað sjö af síðustu átta leikjum sínum í deildinni og sakna Cedric Isom augljóslega mikið úr sóknarleik sínum enda skoraði liðið ekki nema 56 stig í kvöld.
Jón Orri Kristjánsson leikmaður Þórs sagði að þrátt fyrir mikinn mótbyr sé enginn uppgjafartónn í mönnum. ,,Nei nei, við ætlum alltaf að vinna næsta leik og við gefumst ekki upp þó að þetta hafi verið erfitt undanfarið. Við spiluðum fínan varnarleik í kvöld en gerðum illa sóknarlega. Annar leikhluti varð okkur auðvitað að falli, 6 stig skoruð í heilum leikhluta er alltof lítið. Við skulum ekki gleyma því samt að við vorum að spila á móti frábæru liði kvöld sem er að mínu mati eitt af þeim þremur bestu á landinu og náðum að halda þeim í 74 stigum þannig að það eru jákvæðir hlutir í þessu hjá okkur. Við ætlum okkur að taka sigur á móti FSU og ég er sannfærður um að það takist."