Smá hugleiðing!

Frá Grímsey
Frá Grímsey
Nýverið var 585 milljónum króna úthlutað úr Matvælasjóði og er þetta þriðja úthlutun sjóðsins. Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Áhersla er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvæla. Sjóðnum er einnig heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum. Sjóðurinn fylgir eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Við að fullvinna vörur aukum við verðmæti þeirra, sköpum störf og sköpum vörunni sérstöðu (búum til verðmætt "brand"). Er hægt að auka verðamæti afurða sem dregin eru á land í Grímsey, fjölga þannig störfum og stuðla að samfélagsuppbyggingu? Hvað er hægt að gera með önnur verðmæti sem matarkistan Grímsey gefur af sér s.s. egg, fugla, skarfakál, fjörugróður, þara, jafnvel geitur og kindur?
Í boði eru fjölmargir sjóðir sem styðja við nýsköpun og vöruþróun. Hér eru nokkur dæmi um verkefni sem hlutu nýverið stuðning úr Matavælasjóðnum og snúa að því að auka verðmætasköpun sjávarfangs. Þau endurspegla að með skapandi hugsun og aðgerðum er hægt að búa til verðmæti, fjölga störfum og skapa sérstöðu!
1. "Þorskroð snakk"
2. "Aukin bragðgæði og áferð íslensk fisk með hægmeyrnun"
3. "Bætaefnadrykkir með íslenskum þörungum"
4. "Bragðefni unnin úr sjávarfangi"
5. "Markaðssókn Fish&Chips í Bandaríkjunum" (ég vil bara Grímseyjar Fish&Chips - langbest - væri frábært að sjá slíka vöru fullunna í Grímsey og koma henni á markað víða um heim! Hvað myndi það skapa mörg störf í Grímsey?)
6. "Markaðssetja grásleppuhrogn í Sushi"
Endilega lítið á öll hin verkefnin sem einnig hlutu stuðning. Þau kunna að gefa ykkur hugmyndir þau tækifæri sem felast í nýsköpun og vöruþróun ýmissa matvæla.
Matareyjan Grímsey hefur ótal möguleika til vöruþróunar og staðsetning eyjarinnar gefur vörunni sérstöðu og forskot á markaði. Hvaða vörur væri hægt að fullvinna í Grímsey: sauðaostar, skarfakálssnakk, bragðefnagerð úr þangi, nýting glatvarma í aguafarms (inniræktun grænmetis með aðstoð fiska), Viskiframleiðsla, grafið ærkjöt með skarfakálssalti, geitasnakk, hágæða prótein unnið úr eggjum "hamingjusamra sjávarfugla"
 
Ég sé ekkert nema tækifæri í þessari matarkistu norðursins - hvar er hægt að finna hreinni afurðir en í Grímsey og í sjónum í kring? Hægt er að skapa fullunnum matvælum úr Grímsey gríðarlega sérstöðu og þar með samkeppnisforskot á markaði.
Ef einhver hefur áhuga að nýsköpun og þróun matvæla í Grímsey þá er ég meira en tilbúin til að veita ráðgjöf við þróun og fjármögnun slíkra verkefna. Það þarf kjark, þor og ástríðu til að ráðast í slík verkefni. Á slíkum vegi eru margar hindranir en líka sætir sigrar.
 
Áfram Grímsey.
 
Greinin birtist á Facebook síðu byggðaþróunarverkefnisins Glæðum Grimsey og er höfundur, Arna Björg Bjarnadóttir, verkefnisstjóri samnefnds verkefnis.

Athugasemdir

Nýjast