18. maí, 2007 - 09:37
Fréttir
Slökkvistarfi í porti Hringrásar í Krossanesi lauk að mestu á þriðja tímanum í nótt og hafði þá staðið í um hálfan sólarhring. Að sögn Þorbjörns Haraldssonar slökkviliðsstjóra á Akureyri er enn vakt á svæðinu og verður eitthvað áfram. Slökkviliðsmenn eru að gramsa í haugnum sem kviknaði í og sprauta á hann vatni til kælingar. Tveir 12 ára piltar, sem voru að fikta með eld í portinu, urðu valdir að brunanum. Allt tiltækt lið slökkviliðsins á Akureyri vann að slökkvistarfi, um 40 manns, og til viðbótar tóku menn úr Eyjafjarðarsveit þátt í slökkvistarfinu, að sögn Þorbjörns. Meðan á slökkvistarfi stóð var um 5.000 lítrum af vatni og sjó dælt á eldinn, eða um 300.000 lítrum á klst. og alls um 3,6 milljónum lítra á þeim 12 tímum sem slökkvistarf stóð yfir. Svo mikill var vatnsflaumurinn á svæðinu að leita þurfti til verktaka til að lagfæra veginn að portinu.
Mikinn svartan reyk lagði frá portinu í gær og fram á nótt, enda eldsmaturinn hjólbarðar og bílflök. Vindáttin var þó hagstæð og fór reykurinn að mestu norður fyrir bæinn. Um miðnætti lægði, að sögn Þorbjörns, og hafði slökkviliðið þá náð tökum á eldinum.