Slökkviliðsstjóri kærir einelti
Slökkviliðsstjórinn á Akureyri hefur sent kæru til Vinnueftirlitsins, vegna meints eineltis annarra starfsmanna hjá Akureyrarbæ í hans garð. Þetta kemur fram í frétt Rúv. Samkvæmt heimildum Rúv hefur kæran ekki verið formlega rædd á milli Vinnueftirlitsins og stjórnenda bæjarins. Kæran snýr að meintu einelti nokkurra starfsmanna bæjarins sem hafa með málefni slökkviliðsins að gera.
Eineltið á að hafa hafist eftir að óánægður starfsmaður slökkviliðsins kvartaði undan slökkviliðsstjóranum, aðeins nokkrum mánuðum eftir að slökkviliðsstjórinn tók til starfa. Bærinn skoðaði hvort þörf væri á því að áminna slökkviliðsstjórann en ekki þótti grundvöllur fyrir því.
Óhætt er að segja að styr hafi staðið um slökkvilið Akureyrar síðustu ár. Núverandi slökkviliðsstjóri, Þorvaldur Helgi Auðunsson, var ráðinn til starfa í september 2013. Forveri hans hafði hætt vegna mikillar óánægju innan slökkviliðsins vegna ásakana um að hann hefði lagt slökkviliðsmenn í einelti. Miklu hefur verið kostað til svo bæta megi starfsanda innan liðsins og vonast var til þess að ráðning Þorvaldar myndi lægja öldur.